132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[19:19]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði að það hefði verið kynning hjá þingflokknum. Þar voru ekki nándar nærri allir mættir. Þær raddir sem heyrðust þar voru gegn frumvarpinu. Nokkrir sögðu ekki neitt.

Það getur vel verið að þeir hafi bara verið hjartanlega sammála og mjög ánægðir. (Gripið fram í.) Það veit ég ekki. Það eru menn á móti þessu og það eru fyrirvarar við þetta frumvarp í Sjálfstæðisflokknum. Það er ekki spurning. Það eru fleiri en ég. Við erum að minnsta kosti tveir.

Svo er það spurningin hvort ég sé ábyrgðarlaus eða hvað sé að gerast. Ég hef alltaf haft efasemdir um Byggðastofnun og mér finnst að sagan taki undir með mér í því. Byggðastofnun stendur sig ekki vel enda, eins og ég hef fært rök fyrir, skekkir hún samkeppnisstöðu fyrirtækja úti á landsbyggðinni með því að styrkja sum fyrirtæki en önnur ekki. Það er alltaf slæmt því menn hafa tilhneigingu til að styrkja þau fyrirtæki sem illa ganga, sem eru illa rekin, og þau lenda þá í samkeppni við vel reknu fyrirtækin sem verða undir. Það er ekki gott.

Styrkir eru bara yfirleitt alltaf hættulegir og mjög vandmeðfarnir. Þannig að ég hef sjálfur verið á móti Byggðastofnun alla tíð og það hefur legið á hreinu. Ég var með mikinn fyrirvara í þingflokknum um þetta mál.