132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[19:21]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemur mér ekkert á óvart að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi efasemdir um Byggðastofnun. Ég held að ræða þingmannsins um það efni sé full heilinda. Mig undraði bara þegar hann lét að því liggja í máli sínu að mikil andstaða hefði verið við málið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það hefur augljóslega ekki verið því að málið er hér flutt sem stjórnarfrumvarp. Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitja sem ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem leggur málið fram sem stjórnarfrumvarp. Það fer nú nærri því að vera meiri hluti í þingflokknum því hann telur ekki mikið meira en 20 manns, held ég.

Það er því algerlega og fullkomlega á pólitíska ábyrgð Sjálfstæðisflokksins þó hv. þm. Pétur H. Blöndal geti auðvitað haft sína sérskoðun á því. Það vakti hins vegar athygli mína hvaða orðalag hv. þingmaður kaus að nota um tillöguflutning flokksbræðra sinna í Sjálfstæðisflokknum hér á Alþingi, að þeir séu í stjórnarfrumvörpum sem þeir standa að að leggja til við Alþingi Íslendinga sovétskipulag. Og þau frumvörp sem ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins leggur fram á Alþingi séu frumvörp í þeim anda sem lögð voru fram á sovéska þinginu á árabilinu 1930 til 1950. Mér fannst það lýsa svo miklum málefnaágreiningi að mér var næst að halda að hv. þm. Pétur H. Blöndal teldi sig vera starfandi í einhvers konar kommúnistaflokki sem ætlaði að miðstýra hér öllu atvinnulífi.

Mér finnst það miklar ýkjur og fjarri öllu sanni því þó hafa megi verulegar efasemdir um Byggðastofnun þá held ég að það sé nokkuð langt yfir markið skotið að líkja því við eitthvert Sovét-Ísland.