132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[19:23]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að endurtaka að það sem ég var að fjalla um var kynning fyrir þingflokkinn. Hún var sögð vera þannig að málið hefði verið kynnt fyrir þingflokki Sjálfstæðisflokksins, og bara búið. Ekki orð um hvort komið hefðu einhverjar neikvæðar raddir þar fram. Það er það sem ég var að gagnrýna.

Það komu fram neikvæðar raddir í þeirri kynningu. Hvort við erum hér með kommúnistaflokk eða ekki? Ríkisstjórnin hefur gert mjög marga og góða hluti. Hún hefur stundað einkavæðingu. Hún hefur selt bankana. Hún hefur gert mjög marga hluti, lækkað skatta og minnkað álögur á fyrirtæki. Ég er afskaplega ánægður með það.

Þó það komi eitt og eitt frumvarp sem er að mínu mati til skaða þýðir það ekki að ég sé einhvern veginn snúinn frá ríkisstjórninni. Langt í frá. Ég má hafa mína skoðun á þessu máli. Ég hef hana. Það vill svo til að ég hef stundum skoðanir sem kannski fara ekki alveg saman við skoðanir annarra. Ég hef aldrei nokkurn tímann sagt að við sjálfstæðismenn hugsum svona eða hugsum hinsegin. Ég er ekki beintengdur við heila allra sjálfstæðismanna, eins og sumir samfylkingarmenn eða vinstri grænir tala stöðugt: Við vinstri grænir eða við samfylkingarmenn ályktum svona eða hinsegin. Ég hef mína skoðun og hún fer yfirleitt saman við skoðanir flokksbræðra minna, þess vegna er ég nú í flokknum, og í öllum meginmálum sammála stefnu hans.