132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[19:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lokaorð hv. þingmanns voru þau að skoðanir hans færu yfirleitt saman við skoðanir flokksbræðranna og systkinanna. Ég held að í þessu máli sé nú ansi langur vegur frá því að svo sé. Þar sem þau sjónarmið eru líka uppi í hans þingflokki, eins og hann veit náttúrlega, að í þessu frumvarpi sé alls ekki gengið nógu langt í sambandi við byggðastefnu. Þannig að það er svolítið erfitt að nálgast flokkinn, virðist vera, í þessu máli. En ég vona nú að það standi allt til bóta.

Hv. þingmaður sagði að hann hefði gjarnan viljað að Byggðastofnun yrði látin deyja drottni sínum. Ég hefði reiknað með að hv. þingmaður teldi þó að þetta fyrirkomulag væri skárra en það sem nú er. Við erum þó að fækka ríkisstofnunum og fækka ríkisforstjórum. Af því hlýst nokkur hagræðing. Það hlýtur að vera jákvætt fyrir hv. þingmann.

Svo er það þetta með að við séum að stýra atvinnulífinu. Það er ekki rétt. Við erum ekki að stýra atvinnulífinu með þessu frumvarpi. Við erum hins vegar að gera nákvæmlega eins og aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við og þjóðir sem hafa náð árangri á sviði nýsköpunar, eins og t.d. Finnar. Við erum að efla þekkingarsetur um allt land þar sem kemur saman háskólastarfsemi, rannsóknarstarfsemi og síðan fyrirtækjastarfsemi. Í þessum þekkingarsetrum verða til hugmyndir sem síðan verða að atvinnutækifærum og fyrirtækjum. Þetta er það sem allar þjóðir eru að vinna að og ég veit að Íslendingar eru ekkert öðruvísi. Ég er því sannfærð um að þetta mál verður til að efla okkur í sambandi við sprotastarfsemi, sprotafyrirtæki, uppbyggingu þeirra og nýsköpun í landinu.