132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[19:27]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á blaðamannafundinum sem haldinn var kynnti ég ekki frumvörp. Ég fór ekki með neitt frumvarp á þann fund. Það veit hv. þingmaður. Hins vegar kynnti ég þetta mál í meginatriðum enda hafði ég gert samkomulag við ráðherra Sjálfstæðisflokksins um það. Þeir styðja þetta mál að fullu. Ég get svo ekki svarað til um það hvernig þeir vinna gagnvart sínum þingflokki. Það er eitthvað sem hv. þingmaður veit meira um.

En þessi aðferð er ekki nein nýjung. Þetta er oft gert og yfirleitt eftir ríkisstjórnarfundi. Þá liggur frammi dagskrá um það sem hefur verið á dagskrá viðkomandi fundar og fjölmiðlar fá aðgang að þeirri dagskrá og hafa síðan samband við ráðherrana og fá upplýsingar.

Það sem hv. þingmanni líkaði kannski ekki í þessu sambandi var að við sýndum þarna hluta af þeim glærum sem voru kynntar á fundi með þingflokknum en því miður mættu ekki allir á hann. En einhverjir mættu.

Það sem ég er að segja er að það er svo mikil breidd. Ef hv. þingmenn mundu ná saman innan Sjálfstæðisflokksins um þetta mál er ég sannfærð um að þeir mundu einmitt mætast í þessu frumvarpi. Því hér er hin sannkallaða miðjuleið farin.