132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[20:21]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum um Nýsköpunarmiðstöð Íslands, þ.e. frumvarp til stofnunar hennar, eða þrísköpunarmiðstöðina eins og hún hefur verið kölluð í daglegu tali því þar á að steypa saman þremur stofnunum í eina. Félagar mínir í þingflokki Samfylkingarinnar sem með mér sitja í iðnaðarnefnd hafa farið yfir helstu áherslur okkar varðandi málið í ræðum fyrr í dag. Ég kem hér fyrst og fremst til að leggja áherslu á örfá atriði.

Það sem fyrst og fremst hefur vakið athygli okkar í þinginu og kannski almennings á þessu máli, sérstaklega á síðustu vikum, er sú uppreisn sem gerð hefur verið gegn stjórninni og hefur vakið ákveðnar spurningar um hvernig stjórnarfarið sé í landinu og hvernig sé staðið að meirihlutaákvörðunum í ríkisstjórninni og hver styður hvað og hver styður ekki hvað.

Kvað svo rammt að því áðan í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann lýsti því yfir að þessi frumvörp væru sovétskipulaginu helst lík og hefðu getað verið flutt sem frumvörp á þingi kommúnistaflokksins í Ráðstjórnarríkjunum sjálfum á árabilinu 1930 til 1950. Þó það sé nú áður en ég fæddist, held ég að það sé um líkt leyti og Jósef Stalín réði þar ríkjum, einhver illræmdasti harðstjóri allra tíma.

Þegar gengið var á þingmanninn hvers vegna hann veldi samflokksmönnum sínum og stjórnarháttum þeirra þessar lýsingar, þá kvað hann að á þingflokksfundi þar sem þetta mál hefði verið kynnt með sjálfstæðismönnum hefðu allir sem hefðu talað mótmælt frumvarpinu. Þess vegna er nauðsynlegt að ganga eftir því hvernig þetta mál stendur eiginlega, hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé bara í heilu lagi á móti því sem hér er flutt sem stjórnarfrumvarp. Því það er mikilvægt fyrir þingið að það sé ljóst hvað eru stjórnarfrumvörp og hvað eru frumvörp einstakra þingmanna og hvaða mál megi búast við að hljóti brautargengi fyrir tilverknað stjórnarmeirihlutans. Þá kemur á daginn, hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að honum er kunnugt um einn þingmann í Sjálfstæðisflokknum auk sín sem sé á móti frumvarpinu. Ég hygg að það hljóti að vera hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem hefur verið sárt saknað í umræðunni í dag eftir að hafa farið nokkuð mikinn í fjölmiðlum þegar málið kom fyrst fram. En umræðunni er ekki lokið og við hljótum að vænta þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson komi hér og geri grein fyrir afstöðu sinni. En það liggur þá fyrir að það er aðeins öruggt um andstöðu tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Við hljótum hins vegar að lýsa eftir því við 1. umr. málsins hver sé afstaða Sjálfstæðisflokksins til þess stjórnarfrumvarps sem liggur fyrir. Frumvarpið er flutt af ríkisstjórn Íslands og það er lágmarkskrafa að við 1. umr. um málið liggi fyrir hver sé afstaða stærsta þingflokksins sem sæti á á Alþingi til málsins. Ég tala nú ekki um þegar hann er annar stjórnarflokkanna sem að málinu koma. En meðan svo er ekki verðum við að telja að málið liggi þannig, líkt og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur hér lýst, að það séu í raun aðeins tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafi um þetta efasemdir, hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, og aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þá þingmenn hans flestir í iðnaðarnefnd, séu því samsinna. Það er því öndvert við ýmsar þær fréttir sem borist hafa undanfarið sem hafa m.a. verið á þann veg að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd séu andvígir málinu og muni ekki veita því brautargengi úr nefndinni til 2. umr. Ég held að mikilvægt væri að vita ef það er misskilningur eins og virðist mega ráða af orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals sem segir að það séu aðeins tveir sjálfstæðismenn sem séu á móti frumvarpinu. Maður hlýtur að gefa sér að þeir styðji það nema þeir komi hér í ræðustólinn og tilgreini eitthvað annað því svo virðist vera að mikill stuðningur sé við málið hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd og nauðsynlegt að það sé leiðrétt ef svo er ekki. Það er að minnsta kosti venjan þegar ráðherrar senda samráðherra sinn fram með frumvarp sem er stjórnarfrumvarp þá sé við það tryggur stuðningur fyrir fram og líka að þau mál hafi verið kynnt í þingflokkum stjórnarflokkanna og samþykkt þar.

En það mátti ráða af ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé ekki lengur nein valdastofnun, heldur hafi þeir bara fengið kynningu á málinu en ekki tekið það til neinnar formlegrar afgreiðslu og það raunar á fásóttum fundi. Ekki hægt að skilja það öðruvísi en að þingflokksfundir Sjálfstæðisflokksins séu einhvers konar kynningarfundir fyrir ráðherra Framsóknarflokksins til að kynna þau mál sem þeir hyggjast flytja án þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi nokkuð um það að segja. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að fá af þessu nánari lýsingar þar sem samkvæmt lýsingum hv. þm. Péturs H. Blöndals voru allir sem tóku til máls á fundinum á móti frumvarpinu en þó vissi hann aðeins um einn þingmann annan en sjálfan sig sem væri í þeim þingflokki á móti því. Það verður þá að draga þá ályktun að allir þeir sem tóku til máls á þeim fundi hafi verið tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa þá kannski verið einir á þessum kynningarfundi hæstv. iðnaðarráðherra.

En allt um það. Við höfum út af fyrir sig í dag í Samfylkingunni lýst meginsjónarmiðum okkar til málsins. Það sýnist ekki vera ráðlegt að blanda saman í eitt þeim þætti málsins sem snýr að nýsköpun og þeim þætti sem snýr að byggðamálum. Það virðist að ýmsu leyti hafa verið vandað til þess verks að vinna að sameiningu á Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun, en það að ætla að skeyta Byggðastofnun þar aftan við er óráðlegt og ekki gert til að þjóna málinu heldur kannski fyrst og fremst til að reyna að leysa hæstv. iðnaðarráðherra úr þeim mikla vanda sem hæstv. ráðherra hefur allt þetta kjörtímabil og kannski kjörtímabilið á undan líka verið í með byggðamálin og skjóta þeim með einhverjum hætti inn. Auk þess leggjum við á það áherslu að forsendurnar fyrir lánastarfsemi Byggðastofnunar séu mjög breyttar og full ástæða til að hverfa frá þeirri áherslu sem hefur verið á lánastarfseminni og leggja þess í stað fremur áherslu á að styrkja þau verkefni sem menn telja vera styrks verð en hverfa af braut lánveitinganna og ríkisábyrgðar svo sem eins og almennt er viðleitnin í ríkisrekstrinum á öllum sviðum. Ég held að það sé ekki annað en nútímaviðhorf í opinberri stjórnsýslu og fjármálum hins opinbera.

Ég verð að segja að manni sýnist sem frumvarpið sem hæstv. iðnaðarráðherra flytur hérna sé um margt gamaldags og miðist við einhvern veruleika sem var. Auðvitað er algerlega fráleitt að ætla að reka nýsköpunarmál, sem almennt skipta máli fyrir landið allt og ekki síst fyrir meginkjarna byggðarinnar sem er þrátt fyrir allt á suðvesturhorninu þar sem langstærstur hluti landsmanna býr, í einni stofnun undir einhverju sérstöku byggðaljósi. Nýsköpunarmálin skipta máli fyrir unga fólkið í Reykjavík og í kringum borgina, á höfuðborgarsvæðinu öllu, alveg eins og annars staðar á landinu. Um þau ber auðvitað að fjalla sem verkefni landsins alls en ekki í stofnun sem leggur sérstaka áherslu á þær byggðir sem helst eiga í vök að verjast í landinu á sama hátt og ekki ætti að nálgast byggðamálin út frá hinum þrönga sjónarhóli nýsköpunar.

Ég held að út af fyrir sig hafi það verið leitt í ljós með fullnægjandi hætti í umræðunni í dag hversu óheppilegt væri að steypa slíkri tvenns konar starfsemi saman í eitt og báðir málaflokkarnir séu þess eðlis að þá verði að nálgast með allt öðrum hætti.

Ég játa það við þessa umræðu að ég hef verið í hópi efasemdarmanna um ýmis þau verkefni sem ráðist hefur verið í undir flaggi byggðastefnu á undanförnum árum og áratugum. Á stundum virðist heldur mikið af fjármunum fara þar, vissulega af góðum hug en í heldur vonlítil verkefni. Það þyrfti að endurskoða þær áherslur sem þar hafa verið uppi. En þar sem ég er ekki sérfróður um byggðaþróunina og heldur ekki um þær byggðir sem hér eiga hlut að máli þá er hef ég fyrst og fremst, þetta kjörtímabil mitt hér á þinginu, verið áhorfandi og áheyrandi að þeirri umræðu. Ég get ekki sagt að sú reynsla sannfæri mann um annað en að hæstv. ríkisstjórn sé í algeru öngstræti með málaflokkinn í heild sinni. Það kom kannski pínlegast á daginn þegar hér var lögð fram í þinginu skýrsla, „copy/paste“ sem kallað er, meira og minna sama skýrslan um málaflokkinn og lögð hafði verið fram áður. Í raun hafði ekkert gerst nema að við fengum fréttir af því að Byggðastofnun væri komin undir þær lágmarkskröfur sem gera verður til fjárhags slíkrar stofnunar eða þá að fréttir bárust af vandræðagangi í stjórn stofnunarinnar, átökum á milli stjórnarformanns og forstjóra hennar, af starfslokasamningum og öðrum misráðnum athöfnum á því sviði.

Hér hef ég fyrst og fremst orðið vitni að því að hæstv. iðnaðarráðherra hafi leitast við að halda uppi vörnum fyrir ógöngur á ógöngur ofan. Við höfum lítið séð af árangri í þessu starfi, af nokkru sem státa mætti sig af eða af stefnumörkun sem menn hafa náð saman um, sem gefið hefur tilefni til að setja kraft og fjármuni í mikilvæga leiðangra á þessu sviði. Ég vil ekkert fullyrða um það. Auðvitað vaknar sú hugsun hjá manni hvort menn hafi gefist upp á Byggðastofnun eins og hún hefur verið og þetta sé frumvarp um að hún verði lögð niður. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt verður störfum í mesta lagi haldið jafnmörgum á Sauðárkróki en svo verði þetta smátt og smátt hluti af hinni stóru stofnun og heyri sögunni til. Jafnvel hæstv. ráðherra virðist búin að gefast upp á eigin stofnun, þrátt fyrir að hafa tekið margan slaginn og stundum í heldur vonlítilli aðstöðu til að verja það sem þar hefur farið fram.

Virðulegur forseti. Ég árétta þá afstöðu mína að ég tel að það fari ekki vel á því að við sinnum nýsköpunarmálunum í stofnun sem sameinuð er úr þessum þremur stofnunum. Ég tel að það gæti farið vel á því, við eigum að skoða það vel í iðnaðarnefndinni, að sameina Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun og að þar hafi málið að mörgu leyti verið vel undirbúið. Sömuleiðis tel ég rétt að hverfa frá lánveitingum í þessari starfsemi og ábyrgðum, eins og menn hafa gert undanfarin ár, og leggja ríkari áherslu á byggðaaðgerðir í víðari skilningi, á að efla sveitarfélögin í að vinna að öflugri menntun á landsbyggðinni og betri samgöngum, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fór ágætlega yfir í dag. Styrkjum yrði síðan varið til þeirra verkefna sem menn telja að fórnandi sé fé fyrir, fé skattborgara og almennings, en hætta þessari lánastarfsemi. Enda sjáum við á fjárfestingum og neyslunni í íslensku samfélagi í dag að skortur á lánsfé er sannarlega ekki það sem hamlar atvinnuþróun og uppbyggingu í atvinnumálum á Íslandi í dag.