132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[20:51]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hélt stutta en nokkuð skýra ræðu og augljóst var að hann styður ekki frumvarpið. Hann taldi málum þannig komið að ef hann ætti að geta stutt frumvarpið stæði ekki steinn yfir steini í þeim texta sem hér liggur fyrir.

Það var hins vegar býsna athyglisvert sem hv. þingmaður sagði og lagði út af, og hafði eiginlega sem grundvöll í málflutningi sínum, að byggðastefna er pólitík. Það er auðvitað hárrétt. Hv. þingmaður vitnaði til reynslu sinnar marga áratugi aftur í tímann, þ.e. um störf sín í Sjálfstæðisflokknum. Hann sagði að byggðastefna hefði ætíð verið í hávegum höfð þar. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að það er eitthvað annað en við flest höfum upplifað. Það má vera að fyrir þá innvígðu hafi verið fjallað á annan hátt um byggðastefnu en við höfum séð hana í framkvæmd. Það er ekki langt síðan að ráðherra á vegum Sjálfstæðisflokksins fór með byggðamál í landinu og afraksturinn af því var með því skelfilegra sem við höfðum séð, þ.e. ef byggðastefna felst í því að efla allar byggðir landsins en ekki eingöngu á afmörkuðu svæði.

Aldrei hefur öðrum eins árangri verið skilað en þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, fór með þennan málaflokk, þ.e. í því að efla ákveðið landsvæði á kostnað annarra. Yfir þetta hefur farið einna gleggst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem hefur sagt — það er nú eitt af fáum tilfellum sem ég vísa í hann — að vissulega hafi byggðastefna í landinu skilað mjög miklum árangri. Þar hafi menn náð því fram sem þeir vildu, þ.e. að efla höfuðborgarsvæðið. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að á ákveðnu tímabili tókst það býsna vel. (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðherra, fyrirgefðu. Ég heyrði ekki frammíkallið. Ég hélt að hæstv. ráðherra hefði sagt að það hefði ekki verið á þeim árum þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var stjórnarformaður í Byggðastofnun. Ég tók það þannig. En það er tímaskeið sem við þyrftum að gefa okkur tíma til að rifja upp. (Gripið fram í.) Ég skil það mjög vel að hæstv. ráðherra fari úr þingsal þegar rætt er um hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist þegar ég hef vitnað örlítið til þess hv. þingmanns að hæstv. ráðherra gengur úr sal. Við urðum vitni að því ekki alls fyrir löngu, þegar við ræddum um byggðaáætlun sem hæstv. ráðherra lagði hér fyrir, að þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði fór hæstv. ráðherra einnig úr sal. Kom síðan hér í lok umræðunnar og afgreiddi alla hv. þingmenn sem höfðu tekið til máls um byggðaáætlun á sama hátt. Orðin sem voru valin — ég held að það sé ekki rétt, frú forseti, að þau séu endurtekin vegna þess að ég ætla ekki að bjóða hæstv. forseta upp á að slá hér í bjöllu og veita vítur. Ég tel að hæstv. forseti, sem þá sat á stóli, sem er ekki sá sami og situr hér nú, hafi af einhverjum ástæðum ekki áttað sig nógu snemma til að gefa slíkt merki. En þannig var nú orðaval hæstv. ráðherra um þá umræðu sem ég taldi að á margan hátt hefði verið afskaplega róleg og stillt.

Ég vitnaði líka til hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þegar hann sagði að byggðastefna væri pólitík. Ég notaði ákveðið tímabil til viðmiðunar um að það væri rétt hjá hv. þingmanni vegna þess að samflokksmaður hans náði býsna miklum árangri þó hann hafi orðið allt annar en ýmsir aðrir töldu nauðsynlegan. En það er vissulega nauðsynlegt að menn nálgist byggðamálin með því fororði að þar sé um stjórnmál að ræða, öðruvísi er það ekki hægt. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að við látum ekki svo pólitísk mál alfarið í hendur embættismanna sem eiga síðan að vinna úr einhverjum pappírum og skoðunum og skoða hluti og velta þeim fyrir sér. Það eru stjórnmálamennirnir sem eiga að taka ákvörðun. Það hefur því miður verið of algengt, m.a. hjá hæstv. iðnaðarráðherra sem nú situr, að embættismönnum hefur verið kennt um. En það er dæmi um að stjórnmálamennirnir taka ekki þá ákvörðun sem þeir eiga að gera og bera síðan ábyrgð á.

Við munum eftir afar góðu dæmi í þessu samhengi þegar sú tíð var að tískuorðið var fjarvinnsla, þannig átti að bjarga öllum byggðum landsins. Þá átti að færa störf út á land vegna þess að það skipti ekki máli hvar ákveðin störf væru unnin. Þá var nú hugrekki margra hæstv. ráðherra svo mikið að sett var niður nefnd ráðuneytisstjóra. Ráðuneytisstjórarnir, þ.e. embættismennirnir, fengu það merka verkefni að kanna hvað þeir gætu losað sig við marga starfsmenn undan sinni stjórn. Niðurstaðan varð að sjálfsögðu sú, sem ég held að flestir hafi búist við, að ráðuneytisstjórarnir töldu að það væri ekki hægt að færa neitt starf úr sínu ráðuneyti, ekki eitt einasta. Enda voru þau ekki færð mörg.

Þetta sýnir að það er ekki hægt, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson benti á, að ætlast til að embættismenn framkvæmi byggðastefnu nema búið sé að taka ákvarðanir um hvað á að gera. Þá eru embættismennirnir hinir réttu menn til að koma því fram. En það þarf að hafa hugrakka stjórnmálamenn til að taka ákvarðanir. Þannig hefði það átt að vera með fjarvinnsluna. Ráðherrarnir áttu að ákveða hvaða störf ætti að vinna í fjarvinnslunni og láta síðan embættismennina um framkvæmdina. En því miður skorti ráðherrana hugrekki og sumir stjórnarþingmenn sögðu meira að segja vítt og breitt um landið að því miður hefðu menn ekki ráðið við embættismennina. Það var meginskýringin á að þetta gekk ekki eftir. Menn réðu ekki við embættismennina.

Það er verið að segja það um ráðherrana að þeir hafi ekki ráðið við störf sín. Þeir hafi hreinlega ekki ráðið við störf sín. Það voru skýringar sem ýmsir hv. þingmenn gáfu á því að þeirra eigin ráðherrar náðu þessu mikla áhugamáli sínu ekki fram.

Frú forseti. Það er ýmislegt í því frumvarpi sem hér liggur fyrir sem ástæða er til að fjalla örlítið um þó það sé auðvitað rétt, eins og komið hefur fram, að iðnaðarnefnd mun væntanlega fara mjög nákvæmlega yfir þetta og velta fyrir sér hvort hér sé verið að finna málum farveg sem geti skilað betri árangri en hingað til. Við getum svo sem sagt að ekki þurfi að bæta margt til að skila meiri árangri. En þó er ekki ljóst að ýmislegt af því sem hér er nefnt komi til með að skila betri árangri en það sem við höfum haft.

Það er ljóst að lögð hefur verið töluverð vinna í að sameina tvær af stofnununum. Það hefur átt töluverðan aðdraganda og virðist margt benda til að nokkuð einsýnt sé að þá leið eigi að fara. En það sem veldur spurningunum er tengingin við byggðamálin, við Byggðastofnun. Hæstv. ráðherra hefur sagt að þegar það uppgötvaðist, eins og það hafi komið gífurlega á óvart, að eiginfjárhlutfallið var komið niður fyrir 8% þá varð paník og pat og þurfti að grípa til einhverra aðgerða. Þá virtist þessi leið allt í einu þægileg, getum við sagt, vegna þess að hitt var tilbúið og hægt að slengja þessu inn í sama pakkann.

Þetta er því miður svolítið dæmigert fyrir það hvernig menn hafa nálgast byggðamálin og reyndar fleiri mál hjá hæstvirtri ríkisstjórn. Henni virðist erfitt að horfa fram á við, skapa sér einhverja framtíðarsýn og átta sig á því hvert við eigum að stefna og hvaða leið er vænlegust til að ná því markmiði. Það virðist yfirleitt alltaf þurfa að bregðast við þegar eitthvað hefur gerst. Þannig var ekki hægt að skilja hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að nauðsynlegt hafi verið að bregðast í óvæntri stöðu. Allt í einu var eiginfjárhlutfall Byggðastofnunar komið á hættustig. Einhver hefði sagt að þetta hefði átt að vera hægt að sjá með einhverjum fyrirvara og vænlegra hefði verið að bregðast við slíku hættuástandi fyrr þannig að ekki þyrfti að grípa til þeirra úrræða sem gert var, að stoppa allar lánveitingar og setja stofnunina í frost. Þar með var lítið hægt að aðhafast. Þetta er ekki fyrirhyggja og ekki til fyrirmyndar.

Því er verr og miður en þetta gerðist svona. Þá var brugðið á það ráð að slengja þessu við þennan pakka sem virtist á þeim tíma langt kominn, ef ekki tilbúinn. Ýmislegt bendir a.m.k. til þess að reynt hafi verið að klastra þessu saman og reyna að láta þetta líta betur út en efni standa til. Ég verð að segja, frú forseti, að það er af þessum ástæðum mjög mikilvægt að iðnaðarnefnd gefi sér góðan tíma til að fara yfir málið. Við höfum því miður gert allt of mörg mistök á þessu sviði og er ekki á það bætandi. Við þurfum auðvitað að horfa til framtíðarinnar með meiri metnaði fyrir ýmsar byggðir landsins en sjá má af þessu, þótt hér sé auðvitað ýmislegt gefið í skyn og fallega orðað og markmiðin háleit. Það er nokkuð sem maður hefur oft séð áður. En því miður hefur árangurinn ekki verið í samræmi við hin fögru orð. Ég sé ekki að neitt bendi til þess að svo muni verða.

Ef við grípum hér niður í hlutverk og starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar sem boðuð er með þessu frumvarpi þá segir m.a. í d-lið, með leyfi forseta, að hlutverk hennar sé m.a. að: „greina stöðu og þróun búsetuskilyrða og atvinnulífs í landinu og vinna áætlanir sem hafa það að markmiði að stuðla að samkeppnishæfni atvinnulífs og treysta byggð í landinu í samræmi við ályktanir Alþingis í byggðamálum …“

Frú forseti. Þetta er göfugt markmið og býsna vel orðað. Þessi liður vísar þannig séð fram á við og væri óskandi að eftir þessu væri hægt að fara. En mér finnst ég eitthvað kannast við þetta orðalag. Mér finnst ekkert nýtt í þessu orðalagi. Það má segja að það sem einu sinni hefur verið vel orðað megi nýta aftur og aftur en það er engin trygging fyrir því að aðgerðir fylgi frekar en hingað til. En það má segja að iðnaðarnefnd sem fer yfir þetta frumvarp fari einnig yfir byggðaáætlun sem liggur fyrir. Þar höfum við ýmis falleg orð en því miður höfum við áður farið í gegnum byggðaáætlanir sem hafa verið skreyttar fögrum orðum en ekki skilað tilætluðum árangri. Yfirleitt hefur skort á að gengið hafi verið frá verkefnum á þann hátt að ábyrgðin væri klár og tryggt fjármagn til að framkvæma hlutina.

Það vekur líka athygli, frú forseti, að í stjórn Byggðasjóðs er gert ráð fyrir því að það sé ekki aðeins iðnaðarráðherra sem tilnefni í stjórnina. Í fimm manna stjórn á hæstv. fjármálaráðherra að tilnefna tvo menn í stjórn. Þetta eru vísbendingar um að þarna sé samkomulag, væntanlega á milli stjórnarflokkanna, um að þeir hafi báðir aðgang að tilnefningum. Ég hef ekki séð að það hafi verið nauðsynlegt fram að þessu því að ég hef ekki tekið eftir öðru en í stjórn t.d. Byggðastofnunar hafi hæstv. iðnaðarráðherra séð til þess að hinn stjórnarflokkurinn hefði vægi í samræmi við sinn styrk. Hins vegar getur verið að það hafi verið einhver óánægja í hinum stjórnarflokknum með að ráðherrar frá þeim tilnefndu ekki í stjórnina. Að öðru leyti held ég að það sé vegna þess að þarna er sjóður og fjármagn sem eðlilegt kann að vera að hæstv. fjármálaráðherra komi nálægt. Þetta er vonandi bara tengt því.

Það kemur í ljós, eins og hér segir, að stjórn sjóðsins á að setja reglur um starfsemi sjóðsins en þær eru háðar því að hæstv. fjármálaráðherra samþykki þær. Það er ekki bara hæstv. iðnaðarráðherra sem á að fara yfir þessar reglur heldur á fjármálaráðherra að koma þar að og hafa bæði áhrif á það hvernig stjórnin er samansett og síðan reglurnar sem stjórnin á að starfa eftir.

Þessu er hins vegar ekki eins farið með Tækniþróunarsjóð. Þar er að vísu sjö manna stjórn en þar er kemur fjármálaráðherrann ekki við sögu heldur eru þar bæði landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra sem tilnefna einn mann hvor í stjórnina og síðan Samtök atvinnulífsins. Þarna er munur og ég geri ráð fyrir því að á þessu séu auðvitað fullnægjandi skýringar sem ég vænti að iðnaðarnefnd fari gaumgæfilega yfir og kanni hvort þetta sé eðlileg skipan. Mér sýnist koma til greina að fleiri mundu tilnefna í stjórn Byggðasjóðs, eins og gert er með Tækniþróunarsjóð þar sem Samtök atvinnulífsins koma við sögu. Ég hefði haldið að tengja mætti þann sjóð samtökum, þess vegna Samtökum atvinnulífsins ef menn eru stöðugt með þessa tengingu við atvinnulífið. Það er auðvitað líka ákveðinn grundvöllur þegar horft er til Byggðasjóðs.

Við förum mismunandi leiðir að því að ákveða staðsetningar á stofnunum. Stundum hafa verið settar inn í frumvörp takmarkanir á því, þ.e. að stofnunin skuli þess vegna vera á ákveðnum stað eða ákveðnu svæði. Hér er hins vegar ekki um slíkt að ræða heldur segir í 24. gr., með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra ákveður staðsetningu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.“

Ég tel að hæstv. ráðherra hafi gefið það út í fjölmiðlum, og hugsanlega hér í dag þótt það hafi farið fram hjá mér, að það sé í raun ákveðið hvar Nýsköpunarmiðstöð skuli staðsett, þ.e. að hún eigi að vera á Sauðárkróki. Það er þá spurning af hverju það er ekki í frumvarpinu. Eða er skýringin sú að það sé ekki þar með sagt að stofnunin eigi að vera þar til frambúðar, að þótt hæstv. iðnaðarráðherra sem nú situr vilji að hún sé staðsett þar vilji hugsanlega einhverjir aðrir sem hafa gert sér vonir um að komast í það ráðuneyti eiga möguleika á einhverju öðru.

Frú forseti. Ég sé að tíminn flýgur frá mér. Ég verði því að takmarka það sem ég ætlaði að fara yfir. Færð eru rök fyrir því, fjórar meginástæður er það kallað, sem kalla einkum á sameiningu stofnananna. Ég verð að segja, frú forseti, að mér sýnast þær að meginhluta snúa að sameiningu Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Það er lítið í þessum fjórum meginástæðum sem kallar á að Byggðastofnun sé þar með.

Það kemur líka ýmislegt fróðlegt fram í kaflanum um svæða- og byggðarannsóknir og jöfnun lífsgæða. Þar er enn fagurt orðalag sem ég held að flestir sem tekið hafa þátt í að reyna að varða leið inn í framtíðina með byggðaáherslum gætu tekið undir en hér segir, með leyfi forseta:

„Nýjar áherslur felast í hnotskurn í því að geta horfið frá því að þurfa stöðugt að fást við vandamál sem urðu til í fortíðinni í það að beita fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að minnka vandamálin í framtíðinni.“

Frú forseti. Þetta er nákvæmlega það sem menn hefðu átt að gera í fortíðinni, þá sætum við ekki uppi með ýmis vandamál í nútíðinni, ef menn hefðu náð þessu. Ég trúi því m.a. að ef þetta hefði verið haft að leiðarljósi hefðu þau vandamál sem við höfum því miður þurft að horfa upp á í Byggðastofnun að undanförnu og undanfarin ár ekki komið upp. Ef menn hefðu horft til framtíðar og reynt að feta sig inn í framtíðina í stað þess að bregðast eingöngu við vandamálum sem upp eru komin, frú forseti, hygg ég að þetta frumvarp hefði orðið töluvert öðruvísi. En ég vona sannarlega að þetta geti verið leiðarljós inn í framtíðina.