132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta ekki rétt nálgun hjá hv. þingmanni. (JBjarn: Hvað?) Að segja að þetta snúist eingöngu um fjármagn. (JBjarn: Fyrst og fremst.) Vissulega snýst þetta að einhverju leyti um fjármagn eins og allt annað en það skiptir líka máli hvernig fjármagninu er varið. Við erum að tala um breytta stefnu í atvinnuþróunarmálum og að samþætta þá starfsemi sem er til staðar í dag. Eins og hún er í dag er þetta mjög ruglingslegt, það er alveg óhætt að fullyrða það. Með því að breyta þessu í þann farveg sem við erum að leggja til röðum við hlutum þannig upp að starfsemin verður skilvirkari og skilar meiru. Þegar talað er um að Byggðastofnun hafi lent inni í þessari starfsemi eins og eitthvert vandræðabarn þá er það alls ekki þannig. Við erum að fara að þessu eins og aðrar þjóðir eru að gera með því að tengja byggðamálin inn í almenna atvinnuþróunarstarfsemi og það mun skila sér. Það veit ég.