132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:42]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra að það getur vel verið að ákveðin hagræðing náist með þessu, ég ætla ekki að útiloka það, víðs fjarri. Það er mjög þarft verk að reyna að fara sem allra best með fjármuni þjóðarinnar. Það er trúlega jákvæði hlutinn í þessu. Hins vegar skil ég mjög vel allan vandræðaganginn með þetta vegna þess að það vandræðaástand sem við höfum á skipulagi Stjórnarráðsins kallar á svona vandræði. Hæstv. ráðherra sagði áðan að vissulega væru margir fleiri sjóðir sem væru, ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, eðlilegt að hafa með í þessum pakka. Það vill bara svo illa til að þessir sjóðir heyra undir önnur ráðuneyti og hæstv. ráðherra fer ekki með þessa sjóði. Það hefur trúlega verið meginvandamálið við að teikna þetta upp þannig að skilmerkilegt væri, þ.e. að þetta næði allt saman og því náum við væntanlega ekki fram fyrr en við erum búin að stokka upp Stjórnarráðið.

Það er t.d. athyglisverð nálgun varðandi rannsóknarstofnanirnar, sem að ég held að ganga ætti miklu lengra í, þ.e. að tengja þær betur við háskólana. Það er auðvitað jákvætt í þessu frumvarpi þar sem fjallað er um að tengja það saman. Þar er hins vegar gengið allt of skammt. Við þurfum (Forseti hringir.) að tengja þessar rannsóknastofnanir miklu betur við háskólana (Forseti hringir.) og það miklu fleiri en þessar.