132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

731. mál
[21:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ýmislegt sem ekki er tekið nákvæmlega fram í þessum lagatexta. Það er ekki hægt að segja allt í lögum og það að tengja rannsóknarstarfsemi betur við háskóla er eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins. Hv. þingmaður talar svo um einhvern vandræðagang en ég vil segja við hv. þingmann, af því að hann og ýmsir hafa efasemdir um þetta mál: Er ekki líklegt að við sem störfum í iðnaðarráðuneytinu höfum kannski aðeins forskot á hv. þingmenn hvað það varðar að vita svolítið um það sem við erum að tala? Verða ekki hv. þingmenn að treysta því að við séum ekki að leggja eitthvað til sem ekki verður þjóðfélaginu til framdráttar og landsbyggðinni líka. Ég held að hv. þingmenn verði að hafa það aðeins í huga (Gripið fram í.) að við sem störfum í ráðuneytinu erum með ákveðið forskot hvað varðar þá málaflokka sem undir ráðuneytið (Gripið fram í.) heyra og teljum rétt að gera þetta svona.