132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

730. mál
[21:45]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61/1997, með síðari breytingum, á þingskjali 1066, 730. mál.

Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun og frumvarpi til laga um breyting á lögum um Vísinda- og tækniráð. Með því er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tengdur við stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar.

Helstu breytingar frá gildandi rétti sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu eru:

1. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins mun að meginstefnu til einungis taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Sjóðurinn mun veita lán og ábyrgðir í tilteknum tilfellum, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Sjóðurinn mun ekki veita styrki eins og heimild er fyrir samkvæmt gildandi lögum. Kveðið er á um að Nýsköpunarsjóður skuli taka mið af stefnu Vísinda- og nýsköpunarráðs í störfum sínum.

2. Kveðið er á um heimild til handa Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins til að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum, sbr. 5. gr. laga nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. Kveðið er á um að ekki skuli skipa stjórnarmann til lengri tíma en fimm ára. Stjórnin skal setja sér reglur um sjónarmið við mat á fjárfestingartækifærum og umsóknum um lán og ábyrgðir sem ráðherra staðfestir. Áréttað er að ákvarðanir Nýsköpunarsjóðs séu endanlegar á stjórnsýslustigi.

4. Í frumvarpi þessu er lagt til að eigið fé Nýsköpunarsjóðs sé að lágmarki 3 milljarðar kr., sem muni taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs og að einungis megi ávaxta eigið fé, sem ekki er bundið í fjárfestingarverkefnum eða lánum, í samræmi við fjárfestingarstefnu sem kveðið verður á um í reglugerð og starfsreglum stjórnar. Skylda er lögð á Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins að útvista ávöxtun framangreinds eigin fjár.

5. Ákvæði um tryggingardeild útflutnings, sem verið hefur sérstök deild innan Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, eru felld úr gildi. Í frumvarpi til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu, er gert ráð fyrir að tryggingardeild útflutnings verði vistuð innan þeirrar stofnunar.

6. Vöruþróunar- og markaðsdeild Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er lögð niður. Eigið fé hennar verður hluti af eigin fé Nýsköpunarsjóðs, samanber ákvæði til bráðabirgða.

7. Kveðið er á um heimild til handa Nýsköpunarsjóði að gera afleiðusamninga til að verjast gengisáhættu.

8. Nánar er kveðið á um refsinæmi brota gegn lögunum.

9. Gert er ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið muni ekki hafa eftirlit með lögunum, eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Talið er fullnægjandi að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með reikningum stofnunarinnar og hvernig hún ver eignum sínum.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að þessu frumvarpi verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.