132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

730. mál
[21:52]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi um breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur flutt kemur það akkúrat fram sem hér kom fram í seinna andsvari. Það er verið að taka það sem eftir er af þeim 1.500 milljónum sem þarna voru settar inn, þ.e. milljarði af söluandvirði Fjárfestingarbanka atvinnulífsins plús 125 milljónum sem hvert fjárfestingarfélag lagði til. Það má koma fram að félög sem heita Fjárfestingarfélag Vestmannaeyja hf. í Vestmannaeyjum, Fjárfestingarfélag Austurlands á Reyðarfirði, Landsbankinn – Framtakssjóður ehf. á Akureyri og Framtakssjóður EFA í Reykjavík tóku að sér að varðveita þetta fé og ávaxta pundið og bæta við vegna þess að það var sett sem skilyrði um 125 millj. kr. mótframlag.

Eins og fram hefur komið átti að verja þessu til atvinnuuppbyggingar með áherslu á landsbyggðina eins og hér kemur fram, en einkum á sviði upplýsinga og hátækni. Eins og ég sagði áðan þá er það einkum en ekki eingöngu. Það er mikilvægt að þetta komi fram, virðulegi forseti, ef það er rétt að tæplega helmingur eða jafnvel minna sé eftir af upphæðinni. Það kemur fram í svari til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að því miður hafi tapast töluvert af því fé sem sett var í þessi fyrirtæki, þ.e. að fyrirtæki hafi lagt upp laupana, farið á hausinn, hætt starfsemi eða eitthvað svoleiðis þannig að féð hafi tapast og það er auðvitað mjög slæmt.

Þá liggur það sem sagt fyrir að með þessari breytingu er hin sérstaka áhersla á fjárfestingarstarfsemi á landsbyggðinni farin út.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að frá upphafsárum þessa ágæta sjóðs, þessarar ágætu hugmyndar sem þarna var lagt upp, kemur fram í svari, frá því fyrir tveimur árum, að þetta var lagt í ákveðin fyrirtæki sem eru svo talin upp. Því miður kemur það ekki fram í svarinu til mín eins og ég bað um vegna þess að ekki er haldið utan um hver þessara fyrirtækja starfa enn, hve margir vinna þar eða hver veltan sé. Það kemur ekki fram því miður. En ég þykist sjá að hér hefur t.d. verið fjárfest í mjög góðum fyrirtækjum eins og hinu margfræga fyrirtæki CCP hf. sem hóf framleiðslu og sölu á tölvuleikjum á netinu. Ég þekki nú ekki mikið þetta fyrirtæki en hef heyrt mikið látið af því í fréttum og að það gangi vel. Síðan eru hér á meðal því miður fyrirtæki sem ég ætla ekkert að nefna sem hafa hreinlega farið á hausinn eða hætt starfsemi.

Hins vegar kemur fram, virðulegi forseti, í svarinu til mín að með þessa sérstöku áherslu á landsbyggðina varð niðurstaðan sú að til 27 fyrirtækja var veitt fé á þessum upphafsárum en að ekkert hefur verið veitt úr þessum sjóði síðan árið 2000, ef ég skil svarið rétt. Flest þessara fyrirtækja voru í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu eða 15 talsins. Tvö voru í Norðvesturkjördæmi, fimm í Norðausturkjördæmi, þrjú í Suðurkjördæmi og eitt í Suðvesturkjördæmi.

Það sem ég er að draga fram, virðulegi forseti, er að þessi ágæta hugmynd og sá ágæti hugur sem þarna er settur fram með þessum peningum hefur ekki nýst eins og lofað var og talað var um í byrjun til atvinnusköpunar á landsbyggðinni. Að mig minnir hefur m.a. verið fjárfest í fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu — það er svo sem ágætt og bara mjög gott. Ég er ekkert að sýta það neitt en vek hins vegar athygli á því að þetta var skilgreint svolítið öðruvísi — sem hafa verið að framleiða tískufatnað, sportlegan tískufatnað. Ef ég þekki þetta nafn rétt sem hérna kemur fram þá hef séð það í auglýsingum fyrir svona vörur. Ég enga ósk heitari en að það sé rétt að þessu fyrirtæki gangi mjög vel. En það sem hefur verið lagt í þessa starfsemi á höfuðborgarsvæðinu af þessum eyrnamerktu landsbyggðarpeningum nýtist ekki til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni og með því frumvarpi sem hér er lagt fram hverfur það endanlega að hægt sé að gera kröfu um það.

Virðulegi forseti. Það læðist að mér sá grunur að þessi sjóður hafi farið illa í byrjun. Hann tapaði svo miklu fé eins og kemur fram í svari til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, að af þessu stóðu þá aðeins 593 milljónir eftir. Þetta hefði að sjálfsögðu mátt nota í aðra starfsemi annaðhvort hjá fjárvana Byggðastofnun eða þessum Nýsköpunarsjóði.

Virðulegi forseti. Við hæstv. ráðherra þekkjum fyrirtæki m.a. í okkar kjördæmi sem hafa leitað eftir þolinmóðu fé. Það má segja að þau séu hátæknifyrirtæki. Þau eru ekki upplýsingafyrirtæki. En þessi fyrirtæki sem hefur vantað fé hafa ekki fengið það. Forsvarsmenn þeirra hafa hreinlega gefist upp á að ganga milli Heródesar og Pílatusar á höfuðborgarsvæðinu í stjórnum þessara sjóða, Byggðastofnunar og annarra til að reyna að afla fjár. Þeir hafa frábærar hugmyndir um m.a. tæki og vélar sem verið er að framleiða og mundu spara okkur töluverðan gjaldeyri ef við þyrftum ekki að flytja sams konar vélar inn. Þær eru jafnvel miklu betri en þær vélar sem eru á heimsmarkaði og mundu verða mjög góð útflutningsvara. Það hefur ekki tekist að halda áfram að þróa þá starfsemi vegna þess að forsvarsmenn þess fyrirtækis komu alls staðar að lokuðum dyrum.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kvartar yfir að ég styðji of fá mál frá henni. Því skal ég segja í lokin að einu (Gripið fram í.) sinni fyrir nokkrum árum síðan vildi svo til — það var á kosningaári. Það var árið 2003 — að Byggðastofnun var falið að nota 300 milljónir — ég man ekki hvaðan þær voru teknar — en Byggðastofnun var falið að nota þær til að kaupa hlutafé í ýmsum álitlegum fyrirtækjum, flestum ef ekki öllum úti á landi og það var gert. Ég hef stundum sagt að ég vildi óska þess að alþingiskosningar væru á hverju ári, ef ég hefði þetta í huga, þannig að peningar dyttu af himnum ofan í svona atvinnuskapandi verkefni eða til þess að kaupa hlutafé í fyrirtækjum, þ.e. að útvega þolinmótt hlutafé. Ég vildi að það væri þannig en því miður er þetta ekki svoleiðis. Þetta var bara 2003. En það getur vel verið að þetta verði 2007, þ.e. ef alþingiskosningar verða ekki fyrr en 12. maí 2007.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég láta koma fram um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og ég held að full þörf væri á því — og það getur vel verið að við verðum að gera það með fyrirspurn eða hvernig það verður nú — en þegar maður fer að lesa þessi gögn, frumvarpið sem hér er flutt, lögin um Nýskipunarsjóð og kynna sér það sem hefur verið lagt í hann, t.d. þá 4 milljarða sem komu þegar þessir sjóðir voru lagðir niður — hvað þeir hétu nú allir — og hvernig hefur tekist að ávaxta það pund og hvað þeir peningar hafa gagnast mikið í atvinnuuppbyggingu og koma til með að gefa mikið trukk í hugmyndir margra frumkvöðla og eldhuga — e.t.v. getum við vitnað í sum fyrirtæki sem vonandi lifa m.a. vegna þessara peninga, þessa þolinmóða fjár — þá vildi ég samt sem áður vekja athygli þingheims á því að sú tenging við landsbyggðina sem var í þessum milljarði sem ég gerði hér að umtalsefni hverfur. Sá skilningur minn er því miður réttur að það sé þannig enda hef ég fengið það staðfest hjá hæstv. iðnaðarráðherra.