132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[22:22]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljóst að ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir þá er staða okkar frábær. Það er bara ekkert flóknara en það. Það eru ekki margar Evrópuþjóðir sem geta státað af annarri eins stöðu og við á Íslandi. Ef við lítum t.d. á Evrópusambandið eru flestar þjóðirnar þar í miklum vandræðum við að standa við skuldbindingar sínar. Það er ekki þannig á Íslandi. Það er ekki þannig hér.

Ég held að við ættum að vera stolt af þeirri góðu stöðu sem ríkir hjá okkur. Á umhverfisþingi sem haldið var í haust var einmitt sýnt fram á það, með tölulegum upplýsingum, hvernig við hefðum náð árangri á ýmsum sviðum. Ég veit að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sat umhverfisþingið og hafði tækifæri til að skoða þær tölulegu upplýsingar.

Stefnumörkunin er frá 2002 og er í endurskoðun núna og við stefnum að því að ljúka þeirri endurskoðun á þessu ári. Hvað snertir t.d. fræðslu til almennings höfum við einmitt lagt áherslu á þann þátt, sem ég tel gríðarlega mikilvægan í öllum umræðum um þessi mál.