132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[22:28]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar maður les þetta frumvarp yfir er við fyrstu sýn hægt að halda því fram að það hljóti að vera nokkuð jákvætt, og það er jákvætt að skrá og það er jákvætt að upplýsa.

Eins og kom fram í ítarlegri framsögu umhverfisráðherra er hér verið að koma á skráningar- og viðskiptakerfi vegna losunarheimilda, nokkurs konar rafrænum gagnagrunni, þar sem farið er yfir bókhald, skráningarkerfi og upplýsingaskyldu fyrirtækja — 30.000 tonn, eins og kom fram í orðaskiptum hv. þm. Samfylkingarinnar, Marðar Árnasonar, og ráðherrans, og ég ætla ekki að fara nánar út í það. Umhverfisstofnun og Landbúnaðarháskóli verða í aðalhlutverki. Það má setja reglugerð samkvæmt tillögum Umhverfisstofnunar og það verða heimildir um að sekta, allt að 100.000 kr. á dag, ef atvinnurekstur sinnir ekki upplýsingaskyldu sinni. Þessar aðgerðir eru samkvæmt Kyoto-bókuninni sem leggur aðildarríkjunum á herðar að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

Eins og kom fram í máli ráðherrans eru losunarheimildir Íslands tvíþættar. Almenna losunarheimildin um 10% frá 1990 og skilyrt losun sem er íslenska ákvæðið og er oft talað um almennt hjá okkur sem heimildaraukningu upp á 1,6 millj. tonna á ári að meðaltali. Þetta er nokkurn veginn megininnihald þess sem fjallað er um í frumvarpinu.

Nefndinni sem vann frumvarpið var ekki gert að koma með tillögur um stjórnvaldsaðgerðir til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. En nefndin bað sjálf um umboð til að halda áfram og skoða leiðir til að takmarka losun og tryggja þar með skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Nefndin fékk það umboð. Nefndin bað um umboð og fékk það. Ég tek undir að það er undarlegt að fjórum árum eftir yfirlýsinguna frá 2002, og meira en tveimur árum eftir mjög ítarlega skýrslu um öðruvísi þróun á norðurslóð en nokkurs staðar annars staðar í heiminum, og með tengingu Íslands við það, skuli ekki vera búð að setja vinnu í gang að frumkvæði ráðuneytisins og það er eiginlega það sem stingur mann í þessu frumvarpi. Að nefndin skuli hafa þurft að biðja um að fá að halda áfram til að skoða leiðir til að takmarka losun sem á að vera stóra málið og hefði átt að vera stóra málið sem við hefðum átt að vera að skoða á liðnum árum.

Þegar maður les þetta frumvarp, sem í eðli sínu er ágætt, æpir á móti manni algjör skortur á stefnumörkun og umræðu um stóriðjuþróun miðað við loftslagsbreytingar og þörf er á aðgerðum hjá ríkisstjórninni. Það er það sem skellur í andlitið á manni um leið og maður fer yfir þetta snyrtilega frumvarp um rafrænan gagnagrunn, jafnágætur og hann er.

Það er engin umræða eða vinna í gangi á Alþingi vegna hlýnunar á norðurslóð sem kemur ofan á aðrar loftslagsbreytingar sem lágu fyrir, m.a. eftir Kyoto-samkomulagið. Hæstv. umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, þekkir manna best vinnuna við rannsókn á loftslagsbreytingum á norðurhjara sem Robert Corell, amerískur vísindamaður, vann eða hafði yfirumsjón með, en allt að 400 vísindamenn komu að því mikla starfi. Þar var sannað að hlýnun er að minnsta kosti tveimur og hálfum sinni meiri og hraðari á svæðinu í kringum norðurskautið, sem sagt á okkar landi, en annars staðar í heiminum. Þar var sannað að hitnunin er annars eðlis en sveiflurnar sem hafa verið í hitastigi á liðnum öldum og þeir sem þráast við að horfast í augu við hvað er að gerast benda oft á. Enda fóru vísindamennirnir mjög langt aftur í tímann í rannsóknum sínum á því sem var að gerast og sem allt saman kemur fram í hinni svokölluðu ACIA-skýrslu.

Þetta voru alvarlegar fréttir. Það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af loftslagsbreytingum á norðurhveli. Ef losun gróðurhúsalofttegunda veldur hitnun af þessu tagi á norðurhjara þá er þetta stórmál. Í ljósi þessa er ég mjög gagnrýnin yfir því að nefnd skuli hafa þurft að biðja um að halda áfram að skoða hvernig takmarka megi gróðurhúsalofttegundirnar.

Það hefði mátt búast við að Ísland, sem kynnti skýrsluna á sínum tíma, mundi bregðast við með einhverjum hætti og hafa metnað til að hafa frumkvæði í málinu. En það hefur ekki verið svo. Hér á Alþingi hefur engin umræða verið. Það hefur verið erfitt að fá þingið til að bregðast við með einhverjum hætti. Við báðum um að skýrsla um málið yrði flutt hér í þinginu þannig að hægt væri að ræða þær miklu upplýsingar sem þar komu fram. Það fékkst ekki. Við báðum um að haldinn yrði sameiginlegur fundur nefnda og hugsanlega utanríkisráðuneytis. Það var ekki samþykkt og náðist ekki fram. Við spurðum hvort hægt væri að halda einhvers konar ráðstefnu á vegum þingsins. Það var heldur ekki áhugi fyrir því. Hugmyndum og óskum frá Samfylkingunni var ágætlega tekið hverju sinni um þessar ólíku leiðir sem farið var fram á. En ekki varð af neinu.

Ég hlýt að benda á, virðulegi forseti, að í Noregi, næsta nágrannalandi okkar hér á norðurslóð, var brugðist við á annan hátt. Fyrir ári var sérstök ráðstefna eða samráðsfundur í norska þinginu um skýrsluna, ACIA-skýrsluna, og til þeirrar sérstöku ráðstefnu var fulltrúum af norrænum vettvangi boðið. Þar hefur líka verið unnið við stefnumörkun og áfram er verið að vinna með þessi mál í norska stórþinginu. Þannig er tekið á málum þar sem menn taka þessu af alvöru. Það var því merkilegra að norski fulltrúinn, Hill-Marta Solberg, sem leiðir núna norðurskautssamstarfið, var stjórnarandstöðuþingmaður. Í samvinnu við stjórnarandstöðuþingmanninn var öll þessi vinna sett í gang af hálfu þingsins og af hálfu stjórnarmanna þar.

Rússar leiða nú ráðherrasamstarfið á norðurskautssvæðinu og fulltrúi þeirra í þingmannasamstarfinu heldur því fram að þar sé verið að vinna með loftslagsmálin. Ég er sannfærð um að þátttaka Rússanna í norðurskautssamstarfinu, þegar verið var að fara í gegnum loftslagsbreytingarnar þar, hafi haft áhrif á að Rússarnir tóku sig til og gerðust aðilar að Kyoto-samkomulaginu. Þeir skutu þar með Bandaríkjamönnum ref fyrir rass sem ekki vilja koma nálægt neinu af þessu tagi.

Það er því erfitt að vita að hér er bullandi áhugi á því að vinna vel. Stjórnarandstaðan hefur sýnt áhuga á að vinna með stjórnarflokkunum í máli eins og þessu enda á slíkt mál ekki að snúast um stjórn og stjórnarandstöðu. Þetta er alvarlegt mál sem allir eiga að bregðast við og vinna saman að. En það er slegið á útréttar hendur og loksins þegar fram kemur þingmál snýst það um skráningu en ekki aðgerðir. Þess vegna get ég ekki annað, virðulegi forseti, en komið inn á þessi mál þó að þau séu ekki í frumvarpinu sem slíku.

Þar sem Ísland hefur fyrir löngu síðan skuldbundið sig samkvæmt Kyoto-samkomulaginu er svo erfitt að skilja hvernig stjórnarflokkarnir hafa hugsað sér að halda um þessi mál. Ef við lítum á tölur er ljóst að árið 2005 var framleiðslugeta í áliðnaði 270 þús. tonn af áli hér á Íslandi. Árið 2008 verður framleiðslugetan 786 þús. tonn samkvæmt samningum og skuldbindandi yfirlýsingum sem stjórnarflokkarnir hafa gert. Landsvirkjun ætlar að ræða við Alcan um raforku fyrir álverið í Straumsvík. Ef þær fyrirætlanir verða að veruleika verður framleiðslugetan árið 2010 1.066 þús. tonn af áli. Ef þetta verður með þessum hætti hefur árleg losun á CO 2 frá 1990 aukist um þessi 1.600 þús. tonn sem íslenska ákvæðið heimilar og það er þá fullnýtt.

Þá sýnist, virðulegi forseti, sem íslensk stjórnvöld ætli að eiga möguleika á að taka ákvarðanir sem koma til framkvæmda eftir 2012, taka þær núna eða fljótlega, en þær eigi að koma til framkvæmda eftir 2012, sem mun hafa meiri útblástur í för með sér en umsamið er. Þá getur Ísland ekki endurnýjað skyldur sínar samkvæmt Kyoto-samningnum óbreyttar ef það ætti að vera niðurstaðan. Það er þetta sem er svo óþægilegt við að vera í pólitík á Íslandi, að vera alþingismaður á Íslandi, að vera að vinna með fólki á Norðurlöndum, að vera að vinna með fólki á norðurskautssvæðinu þar sem þessi mál eru stöðugt til umræðu. Í öllum þessum löndum hafa menn áhyggjur af þróuninni en hér tala menn ekki saman. Hér er staðhæft fram og til baka. Þetta eru tölur sem við höfum náð fram með því að skoða hvað felst í samningum og yfirlýsingum frá ríkisstjórninni. En getum við fengið það staðfest? Nei. Hvað er sagt þegar við spyrjum um það eða segjum: Nú erum við komin þangað. Nú erum við komin of langt. Þá er bara sagt: skreytni, tómur áróður og árásir.

Að þessu leyti má segja að pólitíkin hér á Íslandi sé vanþroskuð. Ég hef átt frumkvæði að því ásamt öðrum að ná einhvers konar sameiginlegri vinnu hér í nefndunum með ráðuneytinu eða með einhverjum öðrum hætti en það hefur stöðugt verið slegið á þá hönd. Ég harma það. Á sama tíma horfi ég upp á að það er unnið á annan hátt í nágrannalöndunum.

Í samkomulagi sem ríkisstjórnarflokkarnir gerðu um 250 þús. tonna álver á Bakka við Húsavík eru skuldbindingar en enginn fyrirvari um að til innflutnings á losunarheimildum geti þurft að koma þó vitað sé að ef stækkun verður í Straumsvík, sem ég get einungis lauslega gert grein fyrir, verði íslenska ákvæðið fullnýtt. Samt er ekki einu sinni fyrirvari um að það geti þurft losunarheimildir. Þá komum við að þessu með losunarheimildir eða mengunarkvóta. Hefur einhver umræða farið fram um það hér á Alþingi hvort við viljum leyfa innflutning á mengunarkvóta? Nei. Hefur farið fram umræða hér á Alþingi um kosti þess og galla að kaupa mengunarkvóta miðað við það sem við viljum gera? Nei. Svoleiðis umræðu tökum við íslenskir þingmenn ekki á Alþingi.

Svo er það Helguvík. Í þeim tölum sem ég hef nefnt er Helguvík ekki inni. Mér skilst að það sé ekkert sem banni að álver verði reist í Helguvík ef fyrirtækið útvegar mengunarkvóta sem við vitum ekkert hvort íslensk stjórnvöld nú eða síðar vilja. En mér skilst að það sé ekkert sem banni að álver verði reist í Helguvík ef fyrirtækið útvegar mengunarkvóta og uppfyllir öll önnur skilyrði. Þá væri ekki einu sinni hægt að segja nei við því. Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra hvort þetta er rétt hjá mér.

Þá komum við að því sem var eiginlega spurningin í upphafi. Hver er stefna Íslands í loftslagsmálunum? Nefndin á að fá að vinna áfram og koma með einhverjar tillögur um hvernig hægt sé að sporna gegn henni. En hver er stefna Íslands í þessum málum? Við höfum haft fjögur ár að minnsta kosti, reyndar fleiri frá því við byrjuðum að sækja fundi og taka þátt í þessu samkomulagi. Við hljótum að reikna með að taka þátt í nýju samkomulagi eftir 2012 og þá hlýtur að vera mikils virði að geta gengið til þess samkomulags með óbundnar hendur, þ.e. að það sé ekki búið að taka ákvörðun hér heima um að ganga lengra en við höfum samið um innan Kyoto því annað væri verulega ótrúverðugt.

Ég hlýt því í þessu annars ágæta máli — ég ætla að leyfa mér að halda því fram þar til við höfum skoðað það nánar í nefnd og ég treysti að mér muni áfram finnast það ágætt — að koma hér upp og rekja þetta í stuttu máli og kalla eftir viðbrögðum hæstv. umhverfisráðherra sem er okkar vörn í þessari ríkisstjórn gagnvart því að ekki sé of hratt farið, að ekki sé rangt farið að. Hún á að vera vörn okkar allra Íslendinga í umhverfismálunum og gæta að hag landsmanna, landsins alls, gæta þess að ekki sé vaðið í villu. Allt þetta ferli stjórnarflokkanna er ótrúverðugt og ég hvet hæstv. umhverfisráðherra til að gefa þessum málum sem ég hef hér farið yfir meiri gaum.