132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[22:47]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst það ágætt ef það var á verksviði nefndarinnar frá upphafi að nefndin ætti að skoða leiðir til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Það er ekki seinna vænna ef ég á að segja eins og er. En það sem ég er að vísa til er í upphafskaflanum í athugasemdunum við lagafrumvarpið:

„Nefndin óskaði í skilabréfi sínu til umhverfisráðherra eftir áframhaldandi umboði hans til að fá að halda vinnu sinni áfram og skoða leiðir til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda til að tryggja að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Féllst ráðherra á það.“

Út af fyrir sig er það ekki stórmál hvort nefndin var að biðja um að fá að klára það sem henni hafði ekki unnist tími til af þeim verkefnum sem henni voru falin eða hvort hún bað um að fá að fara í verkefni sem henni hafði ekki verið falið. Mér finnst samt betra að það skuli hafa komið fram að umhverfisráðherra hafi falið nefndinni þetta frá upphafi.