132. löggjafarþing — 102. fundur,  10. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[22:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum nýtt frumvarp hæstv. umhverfisráðherra til laga um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda. Eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og sömuleiðis í andsvörum áðan hefðu margir viljað sjá þetta mál aðeins metnaðarfyllra en raun ber vitni. Stjórnarandstaðan hefur í gegnum tíðina frá því að loftslagsmálin voru tekin á dagskrá reynt að brýna ríkisstjórnina til dáða í þessum efnum, til aðgerða og til að marka sér stefnu til að setja sér framkvæmdaáætlanir og til að koma fram með frumvarp af því tagi sem hér er verið að leggja fram. Þess vegna fögnum við því skrefi sem hér er stigið, þó svo ég geti tekið undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að við hefðum viljað sjá þetta skref miklu stærra.

Þegar maður fer að rýna í þau gögn sem við höfum á Alþingi til að taka almennilega á þessu máli verða fyrir manni ýmsar fyrirspurnir sem núverandi stjórnvöld hafa þurft að svara frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar undanfarin 5–6 ár. Þær fyrirspurnir hafa margar hverjar verið í þá áttina að við höfum viljað fá upplýsingar um hvernig stjórnvöld sjái fyrir sér þróun þessara mála. Þá höfum við verið að spyrja annars vegar um á hvern hátt almenn losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum komi til með að þróast á næstu árum og innan þess skuldbindingartímabils sem um ræðir þegar litið er til Kyoto-bókunarinnar og hins vegar höfum við spurt út í þróunina hvað varðar stóriðjuna.

Ég var að renna í gegnum þau svör sem við stjórnarandstöðuþingmenn höfum fengið við þessum fyrirspurnum okkar. Það er nú svo að þau miðast öll við ástand sem virðist heyra sögunni til, þ.e. við ástandið þegar fyrirsjáanleg stóriðjuverkefni voru stækkun álversins í Straumsvík upp í 420 eða 460 þúsund tonn, stækkun álversins hjá Norðuráli á Grundartanga upp í hæsta lagi 300 þúsund tonn og svo í þriðja lagi ný álverksmiðja austur á fjörðum með 320–330 þúsund tonna framleiðslu. Þetta eru þau áform sem svörin sem hingað til hafa verið gefin miðast við.

Síðan varð sprengingin mikla á þessum vetri þegar stóriðjuáformin tóku þvílíkan vaxtarkipp að til urðu hugmyndir um álver á Húsavík, álver í Helguvík og rafskautaverksmiðju á Katanesi og guð veit hvað. Við höfum ekki enn þá fengið útreiknaðar neinar spár varðandi losun allra þessara verkefna sem hægt er að byggja á. Ég hef haldið því fram og geri það enn hér og nú að þau ótrúlegu áform sem við sjáum í pípunum fari langt fram úr heimildum okkar því að lauslegur útreikningur minn gerir ráð fyrir að ef öll þessi áform ganga eftir förum við yfir 2,3 millj. tonna í losun við lok skuldbindingartímabilsins 2012. Og nú spyr ég hæstv. umhverfisráðherra: Er það ekki eitthvað í samræmi við þær tölur sem hún hefur á sínu borði? Ég trúi ekki öðru en hún og hennar menn hafi slegið einhverri mælistiku á þau áform sem hér hafa verið í umfjöllun bæði hjá hæstv. ráðherrum, eins og iðnaðarráðherra og hæstv. forsætisráðherra, og hjá ofurhugum í samfélaginu. 2,3 millj. tonn er lauslegur útreikningur minn ef öll ýtrustu áform verða að veruleika. Samt stendur hæstv. umhverfisráðherra í ræðustóli Alþingis og segir: Íslendingar standa vel. Staða okkar er frábær, sagði hún í andsvari áðan. En hæstv. umhverfisráðherra má þá líka muna eftir því að þegar við gengum frá loftslagssamningnum og Kyoto-bókuninni fengum við Íslendingar heimild til að bæta 10% losun við viðmiðunarárið 1990. Við fengum að auka losun okkar frá viðmiðunarárinu 1990 um 10% á meðan öll önnur iðnríki voru sett í mínus og Evrópusambandinu var að meðaltali gert að draga saman losun um 8%. Fyrir utan þessi plús 10% sem Íslendingar fengu fáum við frílosun fyrir stóriðju upp í 1,6 millj. tonna á skuldbindingartímabilinu. Er það nema von að Íslendingar standi vel þegar meðgjöfin er svo gríðarleg sem raun ber vitni. Mér finnst það ekki vera neitt til að vera stoltur af, eins og hæstv. umhverfisráðherra sagði áðan, að við ættum að vera stolt af því hvernig við stöndum. Ég er það ekki. Þegar áformin eru skoðuð annars vegar og þessar auknu heimildir sem við fengum hins vegar, þá er ég ekki stolt. Ég skammast mín miklu frekar en að vera stolt.

Þegar litið er til íslenska ákvæðisins sem ég hef kosið að kalla undanþáguákvæði Kyoto-bókunarinnar kemur á daginn að þeir þættir sem skilyrða þá heimild sem fólgin er í íslenska ákvæðinu, að af þeim þremur meginatriðum sem okkur er gert að uppfylla til að fá íslenska ákvæðið í gegn erum við að mínu mati að sveigja hraustlega ef ekki brjóta ákveðna þætti í því. Og nú ætla ég að fara yfir þessa ákvörðun, 14/CP.7, sem er hið íslenska ákvæði. Í 2. tölulið þess eru þrír stafliðir sem eiga að lýsa þeim skilyrðum á hvern hátt Íslendingar fái þessa heimild til að auka losun frá stóriðju um 1,6 millj. tonna á skuldbindingartímabilinu. Þá segir að okkur sé nauðsynlegt að hafa þrjá hluti í lagi, þ.e. að heildarkoldíoxíð viðkomandi aðildarríkis, þ.e. okkar Íslendinga í þessu tilfelli, hafi verið minna en 0,05% af heildarkoldíoxíðslosun ríkja í viðauka I árið 1990. Þetta ákvæði stöndumst við örugglega vegna þess að hér er um mjög lítið hagkerfi að ræða og þessar tölur gefa það til kynna að ákvæðið gildi einungis um verulega smá hagkerfi.

Í staflið b er skilyrði um að endurnýjanleg orka sé notuð og sú notkun leiði til þess að losun gróðurhúsalofttegunda á hverja framleiðslueiningu minnki og þá er auðvitað talað um framleiðslueiningu í iðnríkjunum sem í hlut eiga. Þarna set ég verulegt spurningarmerki við því að í mínum huga er virkjunum á borð við þær sem íslensk stjórnvöld eru að reisa fyrir stóriðjuframkvæmdir sínar verulega ábótavant að ýmsu leyti. Í mínum huga eru þær ekki að framleiða endurnýjanlega orku. Þær eru ekki sjálfbærar að því leytinu til að þær valda gríðarlegum náttúruspjöllum sem ekki verður séð fyrir endann á. Allt sem við getum lesið okkur til um virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun gefur okkur ekki bara vísbendingar heldur fullvissu um að umhverfisspjöllunum sé ekki lokið með byggingu virkjunarinnar. Því að ljóst er að áframhaldandi umhverfisspjöll af uppblæstri jökulleirs á gríðarlegu strandsvæði Hálslóns koma til með að verða gríðarleg. Ég set því spurningarmerki við þessa endurnýjanlegu orku og fullyrði að virkjanir okkar til stóriðju standast ekki kröfur stíflunefndar Sameinuðu þjóðanna sem skilaði fyrir 6–7 árum gríðarlega mikilli skýrslu um stíflur og virkjanir í veröldinni. Þar má lesa ákveðnar skilgreiningar um hvaða kröfur eigi að gera til stíflumannvirkja og virkjanamannvirkja til að þær geti talist endurnýjanlegar og þar brýtur Kárahnjúkavirkjun öll grundvallaratriðin. Mér finnst því það atriði vera verulega málum blandið að við séum að framleiða orku á endurnýjanlegan hátt.

Í síðasta lagi vil ég nefna, frú forseti, þriðja stafliðinn í skilyrðunum sem okkur voru sett til að fá að auka losun á þeim nótum sem íslenska ákvæðið kveður á um. Þar er talað um að við þurfum að tryggja að bestu umhverfisvenjur séu viðhafðar og besta fáanlega tækni sé notuð til að lágmarka iðnaðarferlalosun. Hér eru við líka á gráu svæði heldur betur ef ekki beinlínis brotleg því við vitum öll sem hér erum í þessum sal að hreinsunarbúnaður sá sem álverið í Reyðarfirði gerir ráð fyrir að verða búið er ekki besta fáanlega tækni, a.m.k. ekki sú tækni sem frændur okkar Norðmenn hugðust nota í áformuðu álveri Norsk Hydro, Reyðaráli, á sínum tíma en þar var gert ráð fyrir vothreinsibúnaði sem talinn er losa brennisteinsflúor betur frá eða a.m.k. hleypir því ekki út í andrúmsloftið með sama hætti og þurrhreinsibúnaður Alcoa í Fjarðaáli kemur til með að gera. Hvaða aðferð nota þeir Alcoa-menn til að koma brennisteinsefnunum eitthvert þangað sem þeir vilja helst ekki hafa þau eða við reynum að setja þeim einhverjar skorður? Þeir blása þeim upp í loftið í 70 eða 80 metra háum skorsteinum og út í andrúmsloftið fara þau. Þar sveima þau í vindrósinni sem reiknuð hefur verið út fyrir Reyðarfjörð aftur og aftur yfir bæjarfélagið, yfir byggðina með ófyrirséðum afleiðingum varðandi heilsufar íbúanna.

Við erum ekki að nota bestu fáanlegu tækni þarna og ég spyr hæstv. umhverfisráðherra: Hvernig sér hún okkur standa að vígi þegar skoðunarnefndir Kyoto-bókunarinnar koma hingað? Við getum þakkað eftirlitsaðilum Kyoto-bókunarinnar fyrir það að frumvarpið skuli fram komið því auðvitað er búið að senda íslensku ríkisstjórninni ákúrur fyrir það að hún hafi ekki staðið nægilega vel að verki hingað til varðandi þessi mál, varðandi skráningu losunar og varðandi bókhald sem okkur er gert að halda. Ég trúi því að við eigum eftir að fá ákúrur fyrir þá þætti sem ég hef nefnt í íslenska ákvæðinu, staflið b og c í 2. tölulið sem gera það að verkum að mínu viti að það eru orðin veruleg áhöld um það hvort farið er að þeim reglum sem settar voru í Kyoto-bókuninni eða ekki.

Við erum með fleiri álitaefni varðandi Kyoto-bókunina og varðandi það hvernig farið er með þau ákvæði sem við teljum okkur skuldbundin af. Ég spyr t.d. hæstv. umhverfisráðherra: Hvað þýðir það þegar sagt er í bókuninni að á skuldbindingartímabili okkar sé okkur heimilt að losa 1.600 þúsund tonn á ári að meðaltali? Ég hef alltaf skilið það svo að við séum þá að skuldbinda okkur til að losa ekki meira en 1.600 þúsund tonn á hverju ári í þau fjögur ár sem skuldbindingartímabilið stendur, frá 2008–2012, en hæstv. iðnaðarráðherra túlkar það þannig að þar sé um að ræða heimild til að leggja saman alla losunina á þessum fjórum árum og taka meðaltalið af þeim fjórum og ef það fer ekki yfir 1.600 þúsund tonn þá séum við á græna ljósinu.

Ég man ekki hvort hæstv. umhverfisráðherra hafi staðfest þann skilning hæstv. iðnaðarráðherra. Hún kinkar kolli þannig að ég met það svo héðan úr þessum ræðustóli að hún sé sama sinnis og hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum. Þá er það alveg ljóst sem hæstv. forsætisráðherra hefur gefið yfirlýsingar um úr þessum ræðustóli að núverandi ríkisstjórn ætlar að fara í þann leiðangur sem er hafinn eða að hefjast varðandi annað skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar að óska eftir gríðarlegri viðbót við losunarheimildir Íslands. Núverandi ríkisstjórn og hæstv. umhverfisráðherra eru afskaplega stolt af því hvernig málin standa. Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Ég er ekki stolt. Mér finnst til minnkunar fyrir íslenska þjóð að farið skuli í þessa göngu, þennan leiðangur að sækja endalausar undanþáguheimildir til þess að við sem höfum stært okkur af hreinni náttúru, hreinu lofti, góðu heilsufari fólksins okkar út um allt land skulum fara í þennan leiðangur, heimildir til að auka mengunarlosunina af þessari stærðargráðu. Ég átel því núverandi ríkisstjórn nú sem fyrr fyrir þá stóriðjustefnu sem keyrð er hömlulaus.

Frú forseti. Ég nefndi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í losunarmálunum í andsvari áðan. Hún hefur ætlað sér að sinna einum sjö atriðum á síðustu fjórum árum þegar stefnumörkunin var kynnt og birt en ég ítreka það sem ég hef áður sagt: Núverandi ríkisstjórn hefur ekki að mínu mati staðið við eigin áform varðandi samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda t.d. á samgöngum. Eina sem núverandi ríkisstjórn hefur gert í þeim efnum er að setja á olíugjaldið sem hæstv. umhverfisráðherra hefur stært sig af oftar en einu sinni úr þessum ræðustóli og í fjölmiðlum. Það er eina aðgerðin sem hægt er að segja að gripið hafi verið til til að reyna á einhvern hátt að stemma stigu við losun útstreymis gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á Íslandi. Það eru einu almennu aðgerðirnar. Bílainnflutningur er gersamlega óheftur. Enn eru ekki nægilega ívilnandi gjöld eða álögur á þau ökutæki sem eru knúin umhverfisvænum orkugjöfum og fleira mætti nefna í þeim efnum sem núverandi ríkisstjórn þyrfti auðvitað að sinna og hefur ekki gert.

Ég nefni líka rannsóknir á þáttum sem hafa áhrif á útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Ég fullyrði að þær stofnanir sem starfa á þeim vettvangi hafa ekki fengið þá fjármuni sem óskað hefur verið eftir og þörf hefur verið á til að geta aukið rannsóknir á þessum þáttum á þeim nótum sem hefði þurft að gera. Til marks um það er andvaraleysi og að því er virðist hreinlega áhugaleysi núverandi ríkisstjórnar á niðurstöðu skýrslu Norðurskautsráðsins sem kom út öðru hvorum megin við áramótin 2004–2005. Þær niðurstöður voru svo sláandi að eðlilegt hefði verið að núverandi ríkisstjórn tæki traustlega á málum eftir að þær lágu fyrir en það var ekki gert. Fræðslu- og upplýsingagjöf til almennings hefur heldur ekki verið nægilega kröftug að mínu mati og sannarlega þörf á því að taka þar til hendinni. Eins og ég sagði áðan er hér um að ræða ákveðið skref sem getur orðið þess valdandi að við komum til með að standa nær því að uppfylla skuldbindingar okkar í þessum efnum en ella. En sannarlega er ekki nóg að gert því að hér liggur auðvitað fyrir að ná tökum á gríðarlegum vanda.

Ljóst er að þjóðir heims þurfa að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum, ekki neitt lítið heldur gríðarlega mikið á næstu áratugum ef nást á árangur í baráttunni við hlýnun andrúmsloftsins. Talan sem yfirleitt heyrist nefnd varðandi samdráttinn er 50–60% á næstu 50 árum ef það á að nást árangur. Það er því ekki lítið sem þarf að gera. Ríkisstjórn Íslands er svo sem ekki eina ríkisstjórnin sem dregur lappirnar í þessum efnum. Stærri ríkisstjórnir og öflugri standa sannarlega ekki vel að vígi í þessum efnum og hafa skellt skollaeyrum við þeim vísbendingum og merkjum sem við höfum. Þarf ekki að nefna aðra en Bandaríkjamenn og Ástrali orðum mínum til stuðnings.

Ég sé, frú forseti, að tíma mínum er rétt að ljúka í ræðustóli en ég segi enn og aftur að ég hefði viljað sjá tekið hraustlegar á málum en raun ber vitni. Mér þykir ríkisstjórn Íslands sýna afar lítinn metnað í þessum efnum. Staðfestir það sem ég hef haft fyrir augunum í svörum sem við stjórnarandstöðuþingmenn höfum fengið við fyrirspurnum okkar í gegnum tíðina að núverandi ríkisstjórn ætlar að daufheyrast við því ákalli sem loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna gengur út á, þ.e. að sýna í verki hraustlegan samdrátt í losun. Núverandi ríkisstjórn er á allt annarri vegferð. Hún er búin að sýna sig og sanna á alþjóðavettvangi sem sú ríkisstjórn sem leggst hvað lægst í þeim efnum að bjóða mengandi stórfyrirtækjum, mengandi álbræðslum inn í landið okkar og lætur sig einu gilda um náttúruverndargildi landsins. Eina sem hæstv. ríkisstjórn setur á oddinn er að geta sýnt fram á einhvern hagvöxt og þá er alveg sama með hvaða móti.