132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[00:03]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil bregðast við nokkrum atriðum sem hafa komið fram í þessari umræðu sem að mestu leyti hefur verið málefnaleg. En ég mun leiða hjá mér að svara ýmsum rangtúlkunum sem komið hafa fram í umræðunni.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á stefnu ríkisstjórnar Íslands, að við stöndum við skuldbindingar okkar varðandi Kyoto-bókunina og loftslagssamninga. Það er mikilvægt að ekki sé snúið út úr því með neinum hætti í umræðum á Alþingi. Þótt frumvarpið sem hér er til umræðu gangi ekki lengra en raun ber vitni þá hef ég þegar bent á að nefndin sem samdi frumvarpið fékk víðtækara verkefni sem hún á eftir að ljúka. Ég held því að rétt væri að þingmenn spöruðu stóru orðin og skoðuðu niðurstöðuna af þeirri vinnu þegar hún liggur fyrir. Hér er eingöngu um fyrsta skref að ræða í þessum efnum og ég bið þingmenn um að skoða málið þannig.

Ýmsir þingmenn hafa t.d. nefnt skýrslu Norðurskautsráðsins sem var kynnt í Reykjavík fyrir rúmlega ári síðan, í nóvember 2004. Það má segja að þar hafi verið birtar merkilegar niðurstöður sem hafi í raun forspárgildi fyrir það sem er að gerast í veröldinni varðandi breytingar af völdum útblásturs gróðurhúsalofttegunda.

Hverjir skyldu hafa verið í formennsku í Norðurskautsráðinu þegar sú skýrsla var unnin og kynnt? Það voru Íslendingar. Mér finnst ástæða til þess fyrir okkur að vera stolt af því framlagi og þeirri forustu sem við veittum í þeirri vinnu, seinni hluta hennar. Vinnan tók auðvitað lengri tíma en þau tvö ár sem við vorum í formennsku. En það er ljóst að við veittum við þá vinnu mjög afgerandi forustu. Þessi skýrsla hefur vakið mikla athygli um allan heim og er ástæða til að taka mark á niðurstöðum hennar.

Síðan skulum við horfa á raunveruleikann á Íslandi varðandi stóriðjuframkvæmdir, sem margir þingmenn hafa gert að umtalsefni. Hver skyldi hann vera? Um hvað höfum við tekið ákvarðanir? Jú, það standa yfir framkvæmdir við stækkun Norðuráls. Það er verið að byggja álver á Reyðarfirði. Þetta eru þær framkvæmdir sem teknar hafa verið ákvarðanir um. Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því. Lengra erum við ekki komin í þeirri vinnu. Það er vissulega rétt að það er margt í umræðunni. En í dag veit enginn hvernig þau mál þróast og hvernig þeim lyktar. Síðan standa yfir viðræður milli Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík. Menn gefa sér tímann til ársloka til að ljúka þeim og við vitum ekki enn hvort þær leiða til niðurstöðu.

Álver við Húsavík hefur verið nefnt. Það er ekki komið lengra en að vera á hugmyndastigi. Það standa yfir svokallaðar könnunarviðræður, og hefur verið gefin út viljayfirlýsing. Það er augljóslega á algjöru frumstigi. Mér finnst nauðsynlegt, þegar verið er að ræða þessi mál að við horfum á þau í takt við þann raunveruleika sem við blasir. Ég held að það sé ljóst að engum dettur í hug að farið verði í þrjár framkvæmdir í einu, svo stórar sem nefndar hafa verið. Það eru einfaldar ástæður fyrir því. Það eru orkumálin. Við höfum ekki raforku í þetta allt. Það eru umhverfisáhrifin og efnahagsmálin. Samspil þessa hlýtur að ráða því hvaða ákvarðanir við tökum að lokum. Við verðum auðvitað að skoða þessi mál heildstætt. Það þýðir ekki að vera í einu horni garðsins og grafa þar. Það þarf að skoða málin heildstætt og taka síðan ákvarðanir í framhaldinu sem henta okkur, bæði í umhverfismálum, í efnahagsmálum og jafnframt varðandi raforkuna. Hvenær getum við skaffað það sem til þarf til að mæta því sem við viljum gera í þessum efnum?

Hér var talað um að við hefðum fengið aukningu um 10% í almennum losunarheimildum gagnvart loftslagssamningnum á Kyoto-tímabilinu. Af hverju skyldi það hafa verið? Mér fannst vanta í umræðuna að það kæmi fram. Það eru mjög einfaldar skýringar á því. Það er vegna þess að yfir 70% af heildarorkunotkun okkar Íslendinga er af endurnýjanlegri orku. Engin þjóð í heiminum er í sömu stöðu og við hvað það varðar. Við erum einfaldlega heimsmeistarar. Það kemst engin þjóð með tærnar þar sem við höfum hælana hvað þetta snertir. Við erum hætt að nota olíu til húshitunar. Þetta er staðan hjá okkur á Íslandi. Ég tel að við getum glaðst yfir því hve góð hún er.

Hér voru einnig nefnd 1.600 þús. tonnin og meðaltalið. Hvað þýðir það? var spurt. Þetta er alþjóðleg túlkun. Þetta er ekki nein sértúlkun okkar á Íslandi. Þetta gildir bæði um almennar heimildir og séríslenska ákvæðið. Það er ekki nein sértúlkun okkar hér á landi. Þetta er hin alþjóðlega túlkun á þessu ákvæði.

Ég vil líka svara því sem nefnt var í umræðunni af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þar sem hún talaði um metnaðarleysi gagnvart náttúrunni. Ég vísa því algerlega á bug, vísa því til föðurhúsanna að talað sé með þeim hætti um umhverfismál og stöðu þeirra í landinu. Hér er unnið að mjög metnaðarfullum áformum í náttúruvernd. Við erum að vinna samkvæmt náttúruverndaráætlun sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Rétt fyrir áramótin undirritaði ég friðlýsingu um Guðlaugstungur, Svörtutungur og Álfgeirstungur, 400 ferkílómetra svæði, gríðarlega mikilvægt svæði, varpsvæði fyrir gæsir og rústasvæði, sambærilegt við Þjórsárver. Varðandi Surtsey þá var verið að stækka friðlandið þar þannig að það nái bæði til eldstöðvarinnar neðan sjávar og ofan og hafsvæðisins í kring. Við höfum unnið að mjög metnaðarfullum áformum um Vatnajökulsþjóðgarð sem mundi ná yfir bæði Skaftafellsþjóðgarðinn og svo yrði þjóðgarðurinn að norðanverðu. Ég tel að þetta séu metnaðarfyllri áform en nokkur þjóð í Evrópu hefur möguleika á að hafa á sínu borði. Það skortir því sannarlega ekki á metnað hvað snertir náttúruverndarmál hjá þessari ríkisstjórn.

Áðan var það nefnt, sem mér þótti afar lágkúrulegt, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði alla tíð verið á móti umhverfisráðuneytinu. Ég spyr: Hvað er hér á ferðinni? Ég vil rifja upp að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrstur setti á fót nefnd til að koma umhverfismálum undir einn hatt í stjórnarráðinu. Það var Geir heitinn Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem setti þá nefnd á laggirnar. Það var 1975. Síðan var lagt fram frumvarp sem ekki náði fram að ganga hér í þinginu. Það hefur því aldrei skort á það og ég nefni þetta því til sönnunar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft áhuga á umhverfismálum og beitt sér á þeim vettvangi. Það var svo aftur annað mál hvernig það bar að á sínum tíma að umhverfisráðuneytið var stofnað. Ég ætla ekki að fjölyrða neitt sérstaklega um það. Við þekkjum það öll.

Mér finnst að það hafi verið gott að finna þær jákvæðu undirtektir sem mér finnst ég hafa fengið hjá þingmönnum gagnvart þessu frumvarpi. Ég ítreka að hér er um fyrsta skref að ræða í þessum mikilvægu málum og ég vildi ekki bíða með að leggja fram frumvarp sem tæki sérstaklega til skráningar á losun gróðurhúsalofttegunda.