132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[00:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta svar staðfestir metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Hvaða tækifæri ætli Kyrrahafsbúar, sem horfa fram á að missa landið sitt vegna hækkunar sjávarborðs, sjái í hlýnun lofthjúpsins? Þeir sjá engin tækifæri. Þeir sjá bara ógnina sem að þeim stafar.

Það er þetta sem íslenska ríkisstjórnin virðist ekki geta skilið. Hún hvítþvær hendur sínar og lýsir því yfir, jafnt hæstv. forsætisráðherra sem hæstv. umhverfisráðherra, að það skuli bara haldið áfram á þessu stóriðjufylliríi og sótt um frekari undanþáguheimildir til að geta mengað enn þá meira okkar hreinu og tæru náttúru, sem menn eru svo í aðra röndina að reyna að selja og stæra sig af. Reyna að stæra sig af einhverri náttúruverndaráætlun þar sem einungis er búið að friða núna eitt af fjórtán svæðum sem fyrir lá að friða. Og nota bene ekkert af þessum svæðum sem (Forseti hringir.) eru á náttúruminjaskránni kemur til með að ógna stóriðjufyrirtækjunum.