132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[00:21]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Forseti. Ég hef þegar lýst því að sú nefnd sem samdi þetta frumvarp er áfram að störfum og henni hefur verið gert að gera frekari tillögur ef þörf þykir.

Hvað það snertir að við höfum ekki nein úrræði í þessum efnum vil ég minna á að við höfum auðvitað lögin um mat á umhverfisáhrifum. Við höfum skipulagslögin. Framkvæmdir sem menn hugsa sér að fara í, eins og t.d. stóriðjuframkvæmdir, þurfa byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögum og starfsleyfi frá Umhverfisstofnun.

Þar að auki er það nú staðreynd að stóriðja hefur hingað til ekki verið sett á fót hér á landi án sérstakrar aðkomu stjórnvalda. Það hafa verið sett lög um stóriðjuverkefni og síðast voru sett lög um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. (Forseti hringir.) Það var 2003.