132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[00:22]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er bara þannig að nú er búið að breyta lagaumhverfinu. Það er engin þörf á að setja sérstök lög. Ef menn gera samning um að byggja upp álver í Helguvík og fá einhvern til að skaffa sér raforku og fara í gegnum umhverfismat samkvæmt þeim reglum sem liggja fyrir þá hefur hæstv. ráðherra engin tök á því að stoppa slíkt. Það er hvergi gert ráð fyrir því í lögunum um mat á umhverfisáhrifum að hæstv. ráðherra geti stoppað það af því að það passi ekki inn í efnahagsrammann hjá ríkisstjórninni eða eitthvað slíkt.

Það er ekki neitt þannig. Hæstv. ráðherra getur það ekki heldur þó það vanti losunarheimildir. Það er hvergi gert ráð fyrir því. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á losunarheimildunum eins og málin standa núna og hæstv. ráðherra þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Það er stutt eftir af þessu þingi. Jafnvel þó að við verðum á sumarþingi er ekki víst að lög af þessu tagi yrðu komin þar í gegn. Hvenær á þetta að gerast? Það er verið að semja um Straumsvík. Ætli samningurinn geti ekki orðið til í haust? (Forseti hringir.)