132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[00:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var ágætt að heyra frá hæstv. umhverfisráðherra að hún væri tilbúin að bretta upp ermar. Ég held að það sé rækilega kominn tími til þess. Þetta litla frumvarp sem við erum hér að fjalla um er svona lítið hænuskref.

Ég er viss um að hæstv. ráðherra er ekki öfundsverð af að fara fyrir þessum málaflokki í ríkisstjórn sem hefur kannski ríkisstjórna mest fótum troðið íslenska náttúru.

Hæstv. ráðherra ræddi um metnaðinn. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því. Er það metnaður að þurfa að berjast gegn því á hæl og hnakka að jökulárnar í Skagafirði verði stíflaðar og eyðilagðar? Skjálfandafljót liggur undir ef álver verður á Húsavík og stækkar í þá veru eins og þar er vilji til. Skaftárveitur. Þær voru síðast í fjölmiðlum í gær. Langisjór. (Forseti hringir.) Er þetta metnaður að við þurfum að vera (Forseti hringir.) berjast á hæl og hnakka, frú forseti, fyrir þessum náttúruperlum.

(Forseti (SP): Ég bið hv. þingmann að virða ræðutíma.)