132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[00:31]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta skal vera ákaflega stutt. Umhverfisráðherra urðu á þau mistök að halda að hún hefði síðasta orðið í þessum sal og kemur með þann sleggjudóm að ég sé að tala niður til einhvers um þetta. Þegar ég segi að hæstv. ráðherra geti ekki svarað eða réttara sagt að ráðherra almennt geti ekki svarað svona spurningum þá er ég ekki þar með að kasta skít í Sigríði Önnu Þórðardóttur, hæstv. umhverfisráðherra nú, heldur er ég einfaldlega að benda á að umgengnishættir hér á þinginu verða að vera þannig að stjórnmálamenn sem hér hafa valist til þess að vera ráðherrar verða að svara pólitískum spurningum. Þeir geta svarað þannig að þeir hafi ekki gert upp hug sinn um þetta, að þeir séu að bíða eftir tiltekinni atburðarás eða samningaviðræðum við t.d. hinn stjórnarflokkinn, en þeir geta ekki svarað með því að þeir séu að bíða eftir embættismönnum, því það er þessi nefnd sem semur þessi lög, hún er ekkert annað. Hún er ekki þverpólitísk nefnd, það væri þó a.m.k. ástæða fyrir því að geta sagt þetta, að það sé verið að semja um málin annars staðar og ráðherra vilji ekki grípa inn í þær hugleiðingar. En hér er ekki um það að ræða, þetta er ósköp einfaldlega nefnd sem er skipuð — hverjum er hún skipuð? Í henni eiga m.a. sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, þ.e. ráðuneytis sem umhverfisráðherra stjórnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, stofnunar sem undir umhverfisráðherra er sett. Þar eru líka fulltrúar Úrvinnslusjóðs, sem er í túninu hjá umhverfisráðherra og fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins.

Því miður er ekki hægt, það er ekki eðlilegt að ráðherra svari spurningum um vilja sinn með því að benda á þessa menn. Hún getur svarað með öðrum hætti eins og ég hef rakið og ég stend við það og frábið mér athugasemdir af því tagi sem ráðherra kemur hér fram með, þó að hér sé komið vel fram yfir miðnætti, vegna þess að hún verður bara að gjöra svo vel að undirgangast það að til hennar eru gerðar ákveðnar kröfur sem ráðherra.