132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[01:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði að til stæði að selja kortalagerinn eftir því sem mér skildist. Ég vildi aðeins fá heyra hvað það felur í sér að selja kortalagerinn, hvað þar er verið að selja.

Í öðru lagi dró ég fram í ræðu minni hagsmuni starfsmanna og stofnunarinnar, að geta haft sem fjölþættust verkefni til innri þróunar, bæði fyrir einstaklingana og stofnunina í heild. Í þeim efnum væri afar mikilvægt að geta einnig verið með ýmis verkefni þó að þau flokkuðust sem samkeppnismál. Ég þekki það bara frá rekstri þeirrar stofnunar sem ég veitti forstöðu á sínum tíma, ef skorin hefðu verið af henni öll verkefni sem einhver annar hefði getað unnið hefði kannski ekki orðið mikið eftir, a.m.k. hefði það þrengt mjög að henni faglega og möguleikum starfsmanna stofnunarinnar til að sækja fram, tileinka sér nýjungar o.s.frv. Hér á landi eru ekki svo mikil umsvif hvað þetta varðar og þess vegna óttast ég að með því að þrengja að henni þrengist einnig að henni á hinu faglega sviði og möguleikum hennar.

Ég spyr í lokin hvort ekki hafi verið kannað hvort setja mætti þessi rekstraratriði upp sem rekstrarlega sjálfstæða deild við Landmælingar Íslands, til að nýta samlegðaráhrifin sem oft eru nýtt, sem gæti jafnframt verið eins konar mælikvarði eða stuðull fyrir aðra aðila í samkeppni að miða við. Ég óttast (Forseti hringir.) frekar fákeppni á þessum markaði heldur en samkeppni, frú forseti.