132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[01:16]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi vekja athygli á þessum þáttum. Hægt er að koma þeim fyrir á ýmsan hátt í svona stofnun þótt samkeppnisrekstur sé. Ég tek alveg undir þau orð hæstv. ráðherra að ekki er fýsilegt fyrir stofnun að vera í stöðugum deilum við umhverfið um þá þætti sem verið er að vinna að og þá snýr það einmitt að löggjafanum að búa henni það umhverfi að slíkt geti gengið upp.

Ég tel að einn valkosturinn hefði verið sá að finna þessu svigrúm í stofnuninni eins og svo iðulega er gert. Fyrir utan það svo að þegar upp er staðið er verið að fækka starfsliði hjá stofnuninni og skera af henni verkefni. Það var metnaðarmál á sínum tíma að flytja stofnunina til Akraness, þá væri verið að flytja hana út á land o.s.frv. Þetta hefur oft verið notað sem skrautfjöður í þeirri umræðu. Þess vegna finnst mér það kannski minni skrautfjöður að nú skuli vera reynt að kanna hvernig megi skera hana niður. En málið fer til nefndar og þá verða allir þessir þættir skoðaðir.