132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[01:32]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Landhelgisgæslu Íslands sem felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um Landhelgisgæsluna en þau eru frá árinu 1967. Má með sanni segja að þau lög hafi staðist tímans tönn enda vel úr garði gerð. Á þeim tæpu 40 árum sem liðin eru síðan lögin voru samþykkt hefur hins vegar oftar en einu sinni verið rætt á Alþingi og á vettvangi ríkisstjórnar að nauðsyn bæri til þess að skapa Landhelgisgæslu Íslands nýja lagaumgjörð. Með þessu frumvarpi er það gert og kynni einhver að segja að ekki hefði mátt tæpara standa þegar litið er til þeirra breytinga sem eru að verða á gæslu öryggis, leit og björgun í landinu og hafinu umhverfis það við brottför þyrlusveitar varnarliðsins.

Markmið frumvarpsins er í stuttu máli að skapa nýja umgjörð hinnar mikilvægu og fjölbreyttu starfsemi Landhelgisgæslu Íslands og veita ótvíræðar lagaheimildir til að hún geti þróast í samræmi við nýjar kröfur. Ég lít þannig á að með því frumvarpi sem ég flyt hér sé verið að skapa þann sveigjanleika í störfum Landhelgisgæslu Íslands að hún geti sinnt verkefnum á borð við það sem við viljum að hún sinni við núverandi aðstæður.

Í I. kafla frumvarpsins er gert ráð fyrir ákvæðum um stjórn Landhelgisgæslu Íslands, starfssvæði hennar og verkefni. Starfssvæðið er skilgreint skýrar en í núgildandi lögum og sama gildir um verkefni hennar, sbr. 4. og 5. gr. frumvarpsins. Nánari ákvæði um verkefni Landhelgisgæslunnar má síðan finna í III. kafla frumvarpsins. Í núgildandi lögum eru ekki nefnd mörg verkefni sem þegar er sinnt af Gæslunni og má þar nefna fiskveiðieftirlitið, öryggisgæslu á hafinu og leitar- og björgunarþjónustu við loftför, landamæraeftirlit og eftirlit samkvæmt lögum um siglingavernd og ákvæðum sambærilegra laga. Í 4. gr. eru þessi verkefni öll tíunduð sem kjarnaverkefni Landhelgisgæslu Íslands.

Þjónustuverkefni sem þegar er sinnt af Landhelgisgæslunni eru fjareftirlit með farartækjum á sjó, mengunarvarnir og mengunareftirlit, sprengjueyðing og hreinsun skotæfingasvæða, rekstur vaktstöðvar siglinga, móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum og eru þau tíunduð í 5. gr. frumvarpsins. Þar er einnig gert ráð fyrir að stofnuninni sé heimilt að taka að sér ólögbundin verkefni þegar sérstaklega stendur á og er það nýmæli.

Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um lögregluvald og valdbeitingarheimildir tiltekinna starfsmanna Landhelgisgæslunnar. Í þessu sambandi má nefna að nokkur ákvæði frumvarpsins sækja fyrirmynd sína til lögreglulaga.

Þess má geta að hinn 28. febrúar síðastliðinn var ritað undir samning milli Landhelgisgæslu Íslands og embættis ríkislögreglustjóra um samstarf stofnananna. Tekur samningurinn til margvíslegra viðfangsefna á sviði löggæslu, leitar og björgunarmála og almannavarna en einnig til sameiginlegra æfinga og gagnkvæmrar þjálfunar. Þar sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar verða að vera vopnum búnir til að sinna ýmsum verkefnum sínum er nauðsynlegt að kveða á um heimildir þeirra til að beita vopnum Gæslunnar og tilgreina þá starfsmenn sem hafa leyfi til vopnaburðar og er það gert í 8. gr. frumvarpsins.

V. kafli frumvarpsins fjallar um rekstur skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands. Lagt er til það nýmæli að heimilað verði að bjóða út eða stofna hlutafélag um flugrekstur, skiparekstur eða tækniþjónustu Landhelgisgæslunnar með skilyrðum sem ráðherra setur. Þá verði tilgreint að Landhelgisgæslan skuli hafa leyfi fyrir þeirri starfsemi sem hún stundar hverju sinni og við slík verkefni lúti stofnunin eftirliti Flugmálastjórnar Íslands. Hér er verið að vísa til verkefna sem ekki falla undir meginhlutverk stofnunarinnar sem ríkisflugrekstraraðila.

Í núgildandi lögum er hlutverk Landhelgisgæslunnar við leitar- og björgunaraðgerðir á hafinu orðað með öðrum hætti en lagt er til í þessu frumvarpi. Þar segir að eitt af markmiðum Gæslunnar sé að veita hjálp við björgun manna úr sjávarháska og aðstoð við að bjarga bátum eða skipum sem kunna að vera strönduð eða eiga í erfiðleikum á sjó við Ísland ef þess er óskað. Með orðalagi 13. gr. frumvarpsins er kveðið skýrar á um ábyrgðina. Varðandi báta og skip er ekki gert að skilyrði að óskað sé eftir aðstoð enda getur Landhelgisgæslan þurft að grípa inn í án óskar skipstjóra, t.d. til að koma í veg fyrir mengunarslys svo dæmi sé tekið. Kveðið er á um slíkan íhlutunarrétt í 15. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Hvað varðar björgunarlaun er nýmæli að ekki er kveðið á um skiptingu björgunarlauna að réttri tiltölu miðað við föst mánaðarlaun starfsmanna í áhöfnum heldur lagt til að farið verði eftir skiptareglu 2. mgr. 170. gr. c siglingalaga, nr. 34/1985. Er eðlilegt að í lögum um Landhelgisgæslu sé tekið mið af siglingalögum um þetta efni.

Loks má nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að felld verði úr gildi lagaákvæði um að laun og kjör starfsmanna sem vinna á sjó eða í lofti taki mið af samningum sem gerðir hafa verið á almennum vinnumarkaði þannig að ríkið gangi framvegis til samninga við viðkomandi stéttarfélög á sama hátt og á við um félög starfsmanna annarra ríkisstofnana.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að rekja efni frumvarpsins frekar við þessa umræðu en vil í lok máls míns árétta nauðsyn þess að Landhelgisgæslu Íslands verði búin lagaleg umgerð sem geri henni kleift að sinna mikilvægum verkefnum sínum af festu og öryggi og með þeim tækjabúnaði sem til þess er nauðsynlegur.

Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og meðferðar í hv. allsherjarnefnd.