132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[01:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra sagði að þau lög sem nú giltu um Landhelgisgæsluna væru orðin nokkuð gömul. Við höfum fyrr fengið þessi rök inn á borð þingsins, að það séu rök fyrir því að endurskoða þurfi lög að þau séu orðin gömul. Oft eru þau kannski framsýnust þau lög sem eldri eru, ég minnist vatnalaganna t.d. Það eru því í sjálfu sér ekki rök að mínu mati. En hins vegar geta forsendur vel hafa breyst.

Mig langaði aðeins að inna hæstv. ráðherra frekar eftir þessum hugmyndum um hlutafélagavæðingu einstakra þátta í starfsemi Landhelgisgæslunnar, hvað það er komið langt á veg hjá honum í hugmyndum. Ég held það sé einsdæmi meðal þjóða að verið sé að einkavæða öryggisgæsluna, öryggismálin. En mig langar að heyra hjá hæstv. ráðherra hve hugmyndir hans í þeim efnum eru komnar langt.

Í 5. gr. er minnst á þjónustusamninga. Gert er ráð fyrir að hægt sé að bjóða þá út eða einkavæða. Síðasti liðurinn hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Landhelgisgæslu Íslands er heimilt í samráði við ráðherra að taka að sér ólögbundin verkefni með samningum þegar sérstaklega stendur á.“

Mundi t.d. þátttakan í hernaðinum í Írak eða Afganistan flokkast undir þennan lið þegar Landhelgisgæslan eða starfsmenn hennar eru sendir til slíkra starfa?