132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Landhelgisgæsla Íslands.

694. mál
[02:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er orðið dálítið framorðið til að fara yfir þessi mál mjög ítarlega en þetta er stórmál, Landhelgisgæslan, störf hennar, skipulag og verkefni og ekki hvað síst til viðbótar við þá umræðu sem verið hefur undanfarið í ljósi þess að við erum svo lánsöm að fara að losna við herinn, herstöðina á Keflavíkurflugvelli, sem reyndar var fyrir löngu fyrirsjáanlegt. Í þeirri umræðu hefur verið rætt um aukið hlutverk og verkefni fyrir Landhelgisgæsluna. Inn á það hefur ekkert verið komið í þessari umræðu, enda komin hánótt og ekki svo mikið svigrúm til þess í sjálfu sér. Ég hefði samt talið rétt, og það gerist sjálfsagt í nefnd, að hlutverk, rekstur og umfang Landhelgisgæslunnar verði skoðað mjög vandlega í ljósi þeirrar breyttu stöðu og hvaða hlutverki hún getur gegnt.

Ítrekað hefur verið rætt um björgunarmálin og þá staðreynd að hér hafi verið staðsettar þyrlur á vegu Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli sem hafi gefið okkur ákveðið öryggi í björgunarstörfum. Það er alveg hárrétt að oft hefur verið gott að geta leitað til þessara flugvéla. Auk þess hafa þær líka átt yfir búnaði að ráða til að afgreiða eða taka eldsneyti á flugi og á svona gríðarlega stórum hafsvæðum, eins og eru í kringum okkur sem langt er til næsta lands, hefur það skipt miklu máli.

Hvaða möguleika Landhelgisgæslan hefur til að taka að sér þessa þætti svo vel sé þarf náttúrlega að fara mjög ítarlega í gegnum, því auðvitað viljum við að svo verði. Við fögnum því að herinn fari en við ætlum líka að axla þá ábyrgð að hér sé nægilegur björgunarbúnaður. Inn á þetta er ekkert komið í umfjölluninni hér og væri það þó nauðsynlegt. Þess vegna er fáránleg, alveg furðuleg sú nálgun ráðherra sem hann kom inn á að fara að hlutafélagavæða mikilvæga þætti í verkefnum Landhelgisgæslunnar. Þetta er alveg fáránlegt ekki síst í því ljósi sem við nú stöndum frammi fyrir þar sem við þurfum frekar að skoða það hvernig við getum eflt opinbera öryggisgæslu sem Landhelgisgæslan gæti tekið að sér, en þá er eins og áhuginn hjá ríkisstjórninni sé mestur að einkavæða hana. Það er sett fram sem einn af meginþáttum til að vinna að, eins og við höfum fengið að heyra á undanförnum dögum.

Ég hefði talið að þegar við erum að endurskoða lögin um Landhelgisgæsluna eigum við að skoða hvernig við ætlum að takast á við verkefnið um hafið norður undan. Vaxandi umferð er um Norður-Atlantshafið og mér finnst alveg einboðið að við könnum grundvöll þess að hér verði komið upp öflugri björgunar- og eftirlitssveit fyrir umferð um Norður-Atlantshafið. Þetta eru gríðarlega stór hafsvæði. Það þarf öflugan flota, öflugar flugvélar, tækni og búnað til að takast á við það hlutverk og við eigum að hafa frumkvæðið og bjóða fram samstarf um að byggja öfluga björgunarsveit fyrir Norður-Atlantshafið, sveit sem líka getur tekið að sér umhverfiseftirlit með flutningum sem þar eiga sér stað. Þetta hefði ég viljað sjá að kæmi inn í umfjöllun í greinargerð. Vafalaust er þessi greinargerð svo gömul að það hefur ekki verið tekið með þar þá. En nú er þetta búið að liggja ljóst fyrir árum saman reyndar að herinn væri að fara, og hvort sem væri.

Ég vil draga þetta fram og vil hvetja til þess að í hv. allsherjarnefnd verði kallað eftir hugmyndum, skilgreiningu á þörfum fyrir að hér verði allsherjarbjörgunarstöð, eftirlitsstöð fyrir Norður-Atlantshafið í samvinnu við þjóðir sem þar eiga hluta að eða hagsmuna að gæta, þ.e. Norðmenn, Englendinga, Skota, þess vegna Rússa, Kanadamenn, Grænlendinga, Dani og Færeyinga. Að kallað verði til hóps til að taka á því máli. Ég get ekki annað, frú forseti, en lagt öll mín orð í að þetta verði kannað. Það er miklu verðugra og mikilvægara hlutverk en að vera að ströggla við það hvort menn haldi hérna einni, tveimur eða þremur herþotum, eins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru uppteknir við, skríðandi fyrir erlendum herveldum um hvernig megi viðhalda einhverjum herviðbúnaði sem er alveg fjarri öllu lagi. Við eigum fyrst og fremst að vera friðarþjóð og megum þakka fyrir að við getum losnað undan þessu oki sem við höfum verið sett undir með erlendri hersetu. Við eigum að grípa núna tækifærið og lýsa yfir hlutleysi, lýsa yfir að Ísland sé herlaust land, Ísland sé land sem muni beita sér fyrir eflingu friðar. Einn liður í því er að koma upp öflugri björgunar- og eftirlitsstöð sem starfi þess vegna á alþjóðlegum grunni en ekki á sviði hernaðar.

Frú forseti. Þetta var kannski það sem ég vildi leggja inn í umræðuna. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt. Þetta mundi þýða ákveðna framsýni. Verið væri að taka á þessu með ákveðinni framsýni og ákveðnum krafti, en strika burt barnalegar hugmyndir sem alltaf eru settar núna í öll frumvörp ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða þetta eða hitt, ræstinguna, viðgerðina og svo þessi náttúrlega ofboðslegu stórmerkilegu atriði í frumvarpi til laga um Landhelgisgæsluna, drottinn minn dýri. Verum svolítið stórhuga, lítum fram á við og lítum á hversu stóru hlutverki við getum gegnt þar, að hér verði ein allsherjarbjörgunarsveit, landhelgisgæsla á Norðurhöfum, hafsvæðum norður af umhverfis Ísland, norður um Svalbarða og allt til norðurpólsins.