132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Framhald þingfundar.

[02:25]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta til að fá að heyra frá hæstv. forseta hvenær gert sé ráð fyrir því að þessum fundi ljúki. Ég verð að segja að mér finnst ekki góður svipur á umræðu af þessu tagi þegar farið er að taka fyrir viðamikið mál eins og t.d. það sem við höfum nú nýlokið við að ræða, Landhelgisgæslu Íslands, um miðja nótt. Málið hefði auðvitað fengið mun meiri þátttöku ef hér hefði verið fjallað um það á eðlilegum tíma á miðjum degi.

Fram undan eru ein sex mál í viðbót frá hæstv. dómsmálaráðherra. Hluti þeirra eru umdeild eins og dómstólar og meðferð einkamála þar sem fjallað er um bann við myndatöku í dómsölum, seinkun birtinga hæstaréttardóma. Þetta eru málefni sem fjölmiðlafólk hefur fjallað um í fjölmiðlum. Ég veit ekki til að neinir fjölmiðlamenn séu hér á þessum fundi, enda, frú forseti, var eingöngu tilkynnt um það á þingflokksfundum í dag að það yrði kvöldfundur í kvöld og kvöldfundir eru hér venjulega fram undir miðnætti og umburðarlyndi þingmanna heimilar forseta að keyra kvöldfundi jafnvel fram til kl. 1 en ekki mikið lengur. Það var ekki talað um neina næturfundi og nú erum við eins og ég segi komin langt inn í mál dómsmálaráðherra og við erum hvorki með formann allsherjarnefndar í salnum né varaformann í húsi. Ég segi, frú forseti, að ég tel mjög slæman svip á umræðu af þessu tagi. Við höfum keyrt þessa umræðu vel og við erum búin að ná mjög fínum dampi í umræðuna og við erum búin að ná mörgum málum inn í nefndir núna á þessum langa fundi en ég tel ekki alveg eðlilegt að honum verði haldið áfram mótmælalaust. Ég hvet hæstv. forseta til að segja okkur hvenær eigi að ljúka fundi. Ef það er bara eitt mál í viðbót sem verður tekið eða jafnvel tvö þá viljum við fá að vita það, en í öllu falli, hvað á að halda þessum fundi lengi áfram?