132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Fullnusta refsidóma.

675. mál
[02:34]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Frú forseti. Ég hefði kannski átt að breyta þessu í hlutafélag og flytja það norður á Blönduós. Þá hefði gleði þingmannsins verið með öðrum brag hér. En það er rétt hjá þingmanninum að starfsemin hefur hafist á Blönduósi. Ég held að búið sé að ráða þar fjóra starfsmenn. Ég leit þar inn á laugardaginn og sá aðstöðuna og kynnti mér þau áform sem þeir hafa um að breyta húsnæði og öðru slíku þannig að þetta er komið af stað. Ég tel að í nóvember verði þetta komið í það horf sem það verður síðan í til frambúðar og þá verði þarna starfandi á milli 10 og 15 manns. Í sjálfu sér má segja að það sé ekki svo að verið sé að flytja fólk úr Reykjavík þangað norður heldur er verið að ráða fólk til starfa, m.a. var efnt til námskeiðs í skrifstofutækni sem 33 aðilar sóttu og síðan á að boða námskeið í bókhaldi fyrir fólk sem getur sinnt því. Þetta verkefni hefur vakið áhuga fyrir norðan og verður skemmtilegt að fylgjast með því hvernig það þróast.

Þeir sem hafa sinnt þessum verkefnum eru að segja má dreifðir um landið allt. Flestir í Reykjavík og þeir munu sinna öðrum verkefnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar það embætti tekur til starfa.

Það er athyglisvert þegar farið er ofan í þetta mál og það skoðað að útistandandi eru 1,7 milljarðar kr. í óinnheimtum sektum. Þá sjá menn að full ástæða var til þess annars vegar að taka á þessu máli og skoða hvernig þessari framkvæmd væri háttað og hins vegar að velta því fyrir sér hvort ekki ætti að flytja það til embættis sem þekkt er að því að standa vel að innheimtu sekta fyrir hönd ríkissjóðs. Vonandi tekst að innheimta alla þessa fjármuni. Ef þeir fara í gegnum einhvern sparisjóð á Blönduósi þá verður líka einhver vöxtur í þeim rekstri þar.

Varðandi fleiri verkefni þá hefur verið ákveðið að flytja bótanefnd sem er starfandi í Reykjavík til Siglufjarðar og að Lögbirtingablaðið verði gefið út frá Vík í Mýrdal, en í frumvarpinu um lögreglumálin, sem er til meðferðar í allsherjarnefnd, eru þessi verkefni tíunduð. Eins og ég svaraði í fyrirspurn á dögunum heldur ráðuneytið þessu ekki frekar að mönnum en að kynna að það sé tilbúið að stuðla að flutningi þessara verkefna út á landsbyggðina. Síðan er það sýslumannanna á hverjum stað að óska eftir að taka að sér verkefnin.

Við teljum nauðsynlegt að breyta lögum um þetta svo unnt sé að flytja þessa starfsemi með annarri innheimtu sekta á Blönduós. Ég vona að frumvarpið nái fram að ganga í vor þannig að þetta geti verið hluti af þeirri starfsemi sem er að þróast á Blönduósi.