132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Happdrætti Háskóla Íslands.

748. mál
[02:37]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands. Þar er lagt til að Happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna og Happdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga verði heimilt að greiða út peningavinninga í flokkahappdrættum án þess þó að fella niður einkaleyfisgjald Happdrættis Háskóla Íslands. Aftur á móti greiðir það happdrætti ákveðna hámarksfjárhæð í leyfisgjald, eða 150 millj. kr.

Fjárhæðin sem Happdrætti Háskóla Íslands greiðir rennur eftir sem áður í Rannsóknasjóð og Tækjasjóð samkvæmt lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003. Hagnist Happdrætti Háskóla Íslands á þessari nýskipan rennur hagnaðurinn til Háskóla Íslands.

Happdrætti DAS og SÍBS hafa um árabil óskað eftir að fá að greiða út vinninga í peningum. Samkvæmt núgildandi lögum hefur Happdrætti DAS heimild til að greiða vinninga út í bifreiðum, bifhjólum, bátum, búnaðarvélum, íbúðarhúsum og einstökum íbúðum, hljóðfærum, búpeningi, flugvélum og farmiðum til ferðalaga. Happdrætti SÍBS hefur leyfi til að greiða út vinninga í vörum.

Leiða má að því sterk sanngirnisrök að þessi happdrætti fái, í ljósi breyttra þjóðfélagsaðstæðna, leyfi til að greiða út vinninga í peningum. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um happdrætti, nr. 38/2005, kemur fram að í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sé verið að undirbúa breytingar á sérlögum um peningahappdrætti þar sem m.a. verður tekin afstaða til þess hvort afnema beri einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands til að greiða út peningavinninga og fella niður einkaleyfisgjald þess. Ríkissjóði verði bætt tekjutapið með sérstakri gjaldtöku á þá sem fá leyfi til að starfrækja peningahappdrætti. Horfið var frá þessum fyrirætlunum að sinni á grundvelli þeirrar leiðar sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og er tillagan lögð fram í samráði við Happdrætti Háskóla Íslands.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.