132. löggjafarþing — 102. fundur,  11. apr. 2006.

Happdrætti Háskóla Íslands.

748. mál
[02:39]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Í frumvarpi þessu er lagt til að Happdrætti DAS og Happdrætti SÍBS verði heimilað að greiða út peningavinninga í flokkahappdrættum en Happdrætti Háskóla Íslands greiði eftir sem áður 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald til Tækjasjóðs. Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að einkaleyfisgjaldið verði að hámarki 150 millj. kr. á ári í ljósi þess að lögbundnu vöruhappdrættin fá einnig leyfi til að greiða út peningavinninga.

Ég tel þetta vera jákvætt skref í rétta átt. Ég hef aldrei skilið þá mismunun á happdrættum að sum happdrætti hafa einungis leyfi til að greiða út vinninga sína í vörum en önnur í peningum. Það er fagnaðarefni að hér sé verið að draga úr þeim mismun.

Mig langar samt að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort einhver önnur happdrætti standi út af og séu bundin því að greiða út vinninga sína í vörum. Hvort hér á landi séu einhver happdrætti sem ættu hugsanlega að heyra undir þessi lög og fá sama rétt og þessi happdrætti til að greiða út í peningum. Og ef einhver sambærileg happdrætti eru útistandandi, af hverju eru þau ekki með?

Síðan langar mig að spyrja í öðru lagi: Af hverju var horfið frá þeirri leið að afnema einkaleyfisgjaldið með öllu? Af hverju er þessi leið farin? Af hverju er þetta gjald ekki lagt niður? Við sjáum að hagnaður af Happdrætti Háskóla Íslands rennur til Háskóla Íslands en einkaleyfisgjaldið rennur í Tækjasjóðinn. Þetta ætti hvort tveggja að renna til háskólans, af hverju rennur ekki allur hagnaðurinn einfaldlega til Háskóla Íslands? Af hverju var horfið frá þeirri leið sem hæstv. dómsmálaráðherra kom aðeins inn á?

Að lokum er viðbótarspurning sem hæstv. dómsmálaráðherra ætti kannski að geta svarað sem fyrrverandi menntamálaráðherra: Lækkar ríkisframlag til Háskóla Íslands í samræmi við það einkaleyfisgjald sem fer til Tækjasjóðs? Er eitthvert samhengi þarna á milli sem hæstv. dómsmálaráðherra veit um, lækka þeir fjármunir sem renna í Tækjasjóðinn ríkisframlagið á einhvern hátt? Eru einhver tengsl þarna á milli sem hann getur upplýst okkur um?