132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Viðræður í varnarmálum.

[12:19]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það er enginn ágreiningur um þessi mál í ríkisstjórninni. En að gefnu tilefni væri fróðlegt að vita hvað Samfylkingin vill í þessu máli. Það síðasta sem heyrðist frá Samfylkingunni í þessu máli er frá framtíðarhópnum 2004, og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Um afstöðu til herbúnaðar Bandaríkjastjórnar á Íslandi eru skiptar skoðanir innan hópsins. Sumir vilja helst slíta öllu hernaðarsamstarfi við Bandaríkin en aðrir vilja viðhalda því eins og kostur er.

(Forseti (SP): Forseti vill biðja þingmenn um að gefa hæstv. forsætisráðherra hljóð.)

Við teljum ráðlegt að viðurkenna þennan ágreining hiklaust en sameinast jafnframt um stefnu sem flestir flokksmenn telja horfa til hins betra og næstum allir geta sætt sig við.“

Þetta er það síðasta sem heyrðist frá Samfylkingunni um málið og á landsfundi Samfylkingarinnar í stjórnmálaályktun er ekki stafur um þetta mál. (Gripið fram í.) Þannig að það er náttúrlega alveg ljóst hvað er ofan á hjá Samfylkingunni í þessu máli. Það er stefna gamla Alþýðubandalagsins, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Ég er að spyrja Samfylkinguna hér út úr og það er kominn tími til að hún sé einhvern tímann spurð út úr og komist ekki upp með að ráfa hér ávallt stefnulaus um þingsali. (Gripið fram í.)