132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[12:40]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hæstv. forsætisráðherra kemur fyrir hið háa Alþingi og ræðir um kjaramál þjóðkjörinna fulltrúa, þingmanna, ráðherra og annarra æðstu embættismanna, er óhjákvæmilegt að inna hæstv. forsætisráðherra eftir efndum á yfirlýsingum sínum og loforðum í þeim efnum fyrir, að ég hygg, rúmu ári síðan. En sem kunnugt er var þá þröngvað í gegnum þingið, í miklu tímahraki og með röngum tölulegum upplýsingum, eftirlaunafrumvarpi um alþingismenn og ráðherra sem kostað hefur ríkissjóði mörg hundruð milljónir króna umfram það sem ætlað var. Í því var m.a. að finna ákvæði sem gerði það að verkum að miklu yngri menn en áður gátu á sama tíma tekið sér drjúg eftirlaun og verið í stöðum á vegum hins opinbera.

Ég hygg að nú sé liðið ár síðan hæstv. forsætisráðherra lýsti því yfir að á þessu yrði ráðin bót og gerð yrði breyting á því frumvarpi þannig að menn gætu ekki hvort tveggja í senn þegið laun í stórum opinberum embættum og með hinni hendinni eftirlaun úr eftirlaunasjóðum hins opinbera, sem með eftirlaunalögunum voru gerð ansi rífleg. Unnið var lögfræðiálit í snatri til að breyta mætti þessu á þinginu fyrir ári síðan en svo virðist vera að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki haft styrk eða fylgi til að fylgja yfirlýsingum sínum eftir. Og af því að við eigum því að venjast að forsætisráðherrar gangi eftir yfirlýsingum sínum og skili þeim inn í þingið hljótum við að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað dvelur orminn langa? Hvers vegna er þessi lágmarksleiðrétting á eftirlaunafrumvarpinu, sem hæstv. forsætisráðherra var sjálfur í eigin persónu búinn að lýsa yfir að yrði lagfærð, ekki komin?