132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[13:01]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal ekki draga það í efa, þó mig ræki ekki minni til þess hér áðan, að þessi fundur hafi verið haldinn í upphafi þings. Ég geri ráð fyrir því að þetta sé alveg rétt og skal staðfesta það þó mig hafi minnt að hann hafi verið fyrir jól.

En varðandi það að fulltrúar allra flokka hafi flutt eftirlaunafrumvarpið á sínum tíma í þingi þá er það rétt og það stendur líka upp á alla flokka á þingi að leiðrétta þau mistök sem þá voru gerð. Það var einfaldlega afstaða mín og margra annarra, og ég tjáði hana, að ekki væri nógu langt gengið í þessu frumvarpi í þá átt að leiðrétta þau mistök sem ég tel að hafi verið gerð með eftirlaunafrumvarpinu á sínum tíma.