132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[13:02]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Áður en ég kem að því efni sem rekur mig upp í ræðustólinn verð ég að segja að ég hef fylgst nokkuð með mannlífinu þar sem ég er staddur hverju sinni eins og allir gera. Hér á þingi og í stjórnmálunum hefur mér orðið nokkuð starsýnt á ráðherrana. Það er örugglega ekki auðvelt hlutskipti að verða ráðherra og vera það lengi. Eitt af því sem breytir mönnum í því starfi er það að þegar menn verða ráðherrar eru þeir orðnir líkamningar valdsins — saman fer í einum manni bæði sú persóna sem hann hefur alltaf verið og síðan það vald sem hann hefur og ber.

Það kemur auðvitað þannig fram hjá ráðherranum að hann kann að eiga erfitt með á valdatíma sínum, eins og valdsmenn allir fyrr og síðar, venjuleg heiðarleg samskipti við annað fólk vegna þess að afstaða annars fólks gagnvart ráðherranum, valdsmanninum, ber þess merki að hann er valdsmaður. Hann ákveður, hann ræður, hann getur breytt lífi manna, fjárhag þeirra, árangri þeirra í starfi og í persónulegu lífi og aðstæðum þeirra hvers kyns. Því er hætt við að menn hagi sér öðruvísi við valdsmanninn, við ráðherrann, en þeir mundu gera við hvern annan jafningja sinn eða kunningja sinn eða náunga eftir atvikum.

Hættan sem menn af þessu tagi standa frammi fyrir, þeir sem veljast til ábyrgðarstarfa af þessu tagi eða taka sér þau, þannig að við lítum til mannkynssögunnar, er auðvitað sú að það komi að þeim punkti að valdsmaðurinn kunni ekki lengur skil á sinni eigin persónu annars vegar og hins vegar þeim valdsþætti sem í starfinu felst. Hættan er sú að hann fari að taka framkomu manna við sig — sem oft einkennist af einhvers konar hagsmunahyggju, jafnvel smjaðri, undirlægjuhætti af ákveðnu tagi, a.m.k. þeim hyggindum að styggja ekki valdsmanninn, í okkar tilviki ráðherrann, að óþörfu, þannig að engin hætta sé á að hann taki ákvörðun sem er í óhag þeim sem við hann talar.

Ég held að þetta hljóti að vera erfitt og menn sem í þessum vanda lendi hljóti a.m.k. framan af að skoða mjög hug sinn og reyna að átta sig á þessu nýja lífi sem þeir hafa fengist við. Einu mega þó íslenskir ráðherrar fagna og það er það aðhald sem þeir hafa frá Alþingi Íslendinga. Þegar þeir koma þar er vonandi ekki um það að ræða að menn hagi sér við þá eins og öll hegðun manna við þá einkennist af því að þeir séu ráðandi valds heldur eru alþingismenn hér kjörnir til að halda að ráðherranum, vera honum sá spegill sem hann þarf á að halda, vera gagnrýnir á hann, tala við hann eins og hvern annan jafningja, vera jafnvel hortugir við hann og ókurteisir, sem hann hefur gott af. Auðvitað má það ekki ganga í öfgar út, það verður að gæta venjulegra samskipta en ég tel að ráðherrar og valdsmenn hafi gott af því að koma á Alþingi og tala við menn eins og fara gerir milli jafningja sem hafa verið kjörnir á sama hátt á Alþingi Íslendinga og jafnvel eru dæmi um það að þeir sem í ráðherrasætunum lenda hafa verið kjörnir með færri atkvæðum en þeir sem tala á þinginu. Það er engin skömm að því. Það er bara eins og lífið er og einn fer aðra leið en hinn, en ég tel að þetta sé mjög þarft.

Þess vegna, forseti, finnst mér að hæstv. forsætisráðherra ætti að skoða sinn hug með það að koma hér glaðbeittur og ánægður niður í þingið ofan frá valdstað sínum til umræðna við sína jafningja hér, ekki jafningja vegna þess að þeir séu jafnir honum að viti, gáfum reynslu eða störfum, sem eru jafnir honum vegna þess að þeir eru jafnmiklir fulltrúar alþýðu og almennings á Íslandi og hann. Þannig er það. Þess vegna, forseti, kann ég ekki við þá árás sem hæstv. forsætisráðherra gerði að hv. þm. Helga Hjörvar fyrir það eitt að hann hafi með nokkuð hortugum hætti en algerlega sanngjörnum bent forsætisráðherranum á að hann hefði gefið út ákveðna yfirlýsingu sem honum bæri, og honum einum, að standa við, engum öðrum, ekki þinginu, ekki forsætisnefnd þingsins, ekki öðrum flokkum enda gáfu þeir ekki út yfirlýsinguna með honum heldur bæri forsætisráðherranum sjálfum að standa við hana.

Ég tel að það væri affarasælla fyrir forsætisráðherrann, sérstaklega í þeim tilteknu vandræðum sem hann er nú í í pólitískum efnum, þó sjálfsagt rætist úr eins og oft gerist í einkalífi og opinberu lífi, að hugsa jákvætt og koma hér hress og ánægður í þingið til samskipta við okkur sem hér sitjum, jafningja hans, en berja frá sér lunta og valdsmannsleg hrokaviðbrögð af því tagi sem við horfðum upp á áðan. Þetta vil ég segja í mátulega góðu.

Hins vegar var þetta ekki erindi mitt hingað í ræðustólinn heldur það frumvarp til laga um kjararáð sem hér er til umræðu og um leið og ég tek undir þau orð síðustu hv. ræðumanna að margt sé til bóta í þessu frumvarpi og það sé þannig úr lagi gert að vonandi verði minna fjargviðri í framhaldinu um kjör þau sem hér um ræðir þá vil ég gera þá athugasemd af minni hálfu að ég tel að þetta frumvarp sé ekki mikið nær því en fyrri skipan að skapa þau skil sem ég tel vera nauðsynleg í þessum efnum milli embættismanna annars vegar, þar á meðal dómara eftir atvikum, og kjörinna fulltrúa hins vegar.

Hér er um allt aðra stöðu að ræða. Embættismaður er ráðinn til starfa. Hann er í vinnuréttarlegu sambandi, eins og það heitir á lögfræðimáli, við vinnuveitanda sinn sem í okkar tilviki er ríkisvaldið, og það eru dómarar að sínu leyti einnig þó þeir hafi auðvitað tiltekna sérstöðu sem stafar af þrískiptingu valdsins einkum. Hins vegar eru fulltrúar almennings sem eru kjörnir til starfa en ekki ráðnir þannig að þeir eru í raun og veru ekki í sams konar vinnuréttarlegu sambandi og embættismennirnir.

Embættismaðurinn er vonandi, og ég hygg að flest dæmi séu um það, ráðinn til starfa í samræmi við menntun sína og fyrri störf og það er eðlilegt að þeirra kjör taki mið af öðrum þeim sem hafa svipaða menntun og svipaða starfsreynslu og eru búnir svipuðum hæfileikum í starfi, bæði hjá hinu opinbera og á einkamarkaði. Það eru lögmálin í okkar samfélagi þar sem við erum enn á því stigi í mannkynssögunni að menntun og fyrri störf ráða launum og hæfileikar, og það er gott. Það er framþróun frá því að það var ættgöfgi eða samband við valdsmenn eða aðrir slíkir þættir sem réðu því. Einhvern tíma kann að koma að því að gamla Karli Marx verði að sínum vilja og menn fái laun í samræmi við þarfir sínar en leggi fram eftir getu. Ég hygg að það sé nokkuð langt í það þó ekki skulum við örvænta um slíkt.

Hinir þjóðkjörnu komast auðvitað í störf sín á allt annan hátt. Þar er ekki miðað við menntun eða fyrri störf og hæfileikar eru metnir á allt annan veg en gerist í starfsumsókn. Þeir eru einfaldlega kjörnir. Fólkið í landinu treystir ákveðnum mönnum til að vera fulltrúar sínir á þingi og þar með í ríkisstjórn alla jafna og það kýs sér líka forseta á öðrum grunni en eingöngu þeim hvert stigatalið væri í Bandalagi háskólamanna eða launaflokkurinn í verkalýðshreyfingunni.

Ég tel að þess vegna þurfi að skilja þetta miklu betur í sundur en gert hefur verið og mér þykja þau skil sem þó má sjá í þessu frumvarpi ekki vera nægileg. Ég kem ekki auga á stjórnviskuna í því að tala um tvær deildir í þessu kjararáði þar sem þrír eru í annarri deildinni, sem á að ákvarða laun þorra manna, og fimm í hinni, sem á að setjast yfir hina kjörnu fulltrúa. Það er auðvitað æskilegt að það sé sem mestur samhljómur þegar ákveðin eru kjör hinna kjörnu fulltrúa en ég sé ekki að það þurfi ekki að vera samhljómur í hinu líka og viðmiðin eru ekki sjáanleg önnur milli þessara hópa í þessu frumvarpi þótt jákvætt sé að mínu viti og annarra sem hér hafa talað að miðað skuli meira við almenna launaþróun en hinn sérstaka samanburð við sambærilega hópa.

Ég tel sem sé í stuttu máli að ekki sé til neinn sambærilegur hópur við kjörna fulltrúa. Þeir hópar sem tala má um í tengslum við embættismennina séu hreinlega ekki til um hina kjörnu fulltrúa og það þarf ekki annað en líta yfir salinn og horfa á þingheim til að sjá að sem betur fer koma þingmenn og þar með ráðherrar alla jafnan úr ólíkum störfum. Þeir hafa ólíka menntun. Starfsreynsla þeirra er afar misjöfn og eðlileg viðmiðun þeirra sjálfra við hópa í samfélaginu hvað kjör varðar eða aðra stöðu fer líka gersamlega eftir hverjum og einum. Ég tel því að það eigi að nota allt aðrar aðferðir til að ákvarða laun hinna kjörnu fulltrúa. Það sé eðlilegt að marka þeim ákveðinn launastað en síðan eigi mjög stranglega að miða við almenna launaþróun og ekkert annað í breytingum á þeim launastað vegna þess að sambærileg störf eru ekki til.

Ég bendi á að það að miða við menntun, starfsreynslu og ábyrgð, sem algengt er á almennum vinnumarkaði hér og í okkar heimshluta og í opinberum störfum einneginn, á miklu síður við um laun hinna kjörnu fulltrúa. Þau á að ákvarða af öðru sem viðurkennt er í umræðum fyrr og síðar um þingfararkaup á Íslandi. Þau laun eiga að miðast við aðrar forsendur. Það eiga að vera laun sem duga í fyrsta lagi. Það eiga að vera laun sem gera mönnum kleift að einbeita sér að þessari vinnu, mikilvægri skulum við vona, fyrir umbjóðendur sína og fyrir samfélagið í heild án þess að freistast til að taka að sér önnur störf og það eiga að vera laun sem eiga að vera í einhvers konar tengslum við hin almennu laun og þar með ekki of há, eins og sumir hafa haldið fram, og það eiga líka að vera laun sem ekki freista manna til að þiggja óeðlilegar greiðslur eða greiða á efnahagslegum forsendum.

Ég vil segja þetta almennt til að þessi sjónarmið komist áfram til nefndar þeirrar sem fær frumvarpið til meðferðar og ég vona að í störfum sínum geti nefndin komið þessu þannig fyrir að meira mark verði tekið á þeim sjónarmiðum sem ég hef fært fram en gert hefur verið í undirbúningi frumvarpsins.