132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Kjararáð.

710. mál
[13:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum skipan kjaramála alþingismanna og annarra æðstu embættismanna, forseta, ráðherra, dómara og annarra sem hafa á undanförnum árum heyrt undir kjaranefnd og Kjaradóm.

Ég hygg að í þessum efnum sé ekki um mjög margar leiðir að ræða, þ.e. að ákveða laun þeirra sem á einhvern hátt eru þjóðkjörnir til starfa. Það eru í raun og veru kannski aðeins tvær leiðir þó að segja megi með góðum vilja að nefndinni hafi tekist að fara hálfgerða millileið og kem ég að því síðar í ræðu minni. Í meginatriðum tel ég að skipan launamála þeirra sem kjörnir eru til starfa geti aðeins verið með tvennu móti, annars vegar að nefnd sem kosin er af Alþingi ákveði launin og hins vegar að einhver úrskurðaraðili sem hefur lagastoð eins og hér er verið að leggja til, og hafði áður í lögum um Kjaradóm og kjaranefnd, ákveði launin.

Í þessum tillögum nefndarinnar sem samstaða hefur náðst um, og ég sé ekki neina ástæðu til að gera ágreining um og tel að þessu máli verði skipað eins og tillögurnar í frumvarpinu kveða á um, hefur nefndinni kannski tekist að hluta til að fara bil beggja þessara kosta sem ég taldi upp, þ.e. nefndin hefur komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að Alþingi skuli kjósa meiri hluta ráðsmanna eða þrjá af fimm. Þar með liggur það fyrir að Alþingi hefur samþykkt að setja málið í þennan farveg og skipar til þess þrjá fulltrúa. Í raun og veru er Alþingi því orðinn beinn aðili, ekki aðeins með lagasetningunni heldur einnig að því hverjir koma að þessum málum og leggja til niðurstöður. Því mætti líta svo á að Alþingi hafi í rauninni samþykkt niðurstöðuna þegar hún birtist og að samþykktu þessu frumvarpi.

Kjararáðinu er ætlað nýtt hlutverk því eins og segir í 3. gr. gegnir fullskipað kjararáð tvíþættu hlutverki en það ákveður laun æðstu embættismanna, handhafa ríkisvaldsins sem taldir eru upp í þeirri grein, og að viðbættum þeim sem ég hef áður talið upp eru þar einnig hæstaréttardómarar og héraðsdómarar og síðan ákveður fullskipað kjararáð hverjir heyri undir ráðið. Fullskipað kjararáð getur því tekið ákvörðun um það hvort allir þeir hópar sem heyrt hafa undir Kjaradóm og kjaranefnd á undanförnum árum eigi að vera þar til framtíðar eða hvort þeir eigi að færast undan ákvörðunum kjararáðs og semja um laun sín eins og flestar starfsstéttir í landinu gera.

Um þessi efnisatriði málsins og fyrirkomulag í ákvarðanatöku og hverjir muni hugsanlega heyra undir kjararáð í framtíðinni geri ég ekki ágreining. Ég tel að þarna hafi verið lögð til aðferð sem eðlilegt er að sé í þessum lögum, að kjararáðið geti tekið afstöðu til þess hvort allir hóparnir eigi að heyra undir ákvarðanir um laun eftir þessari aðferð eða hverjir eigi ekki að heyra undir úrskurði kjararáðs. Þá verður launum þeirra væntanlega skipað með öðrum hætti, með samningum við ríkisvaldið eða þær stofnanir sem viðkomandi hópar starfa hjá.

Niðurstaða mín er að tillaga sú sem gerð er í þessu frumvarpi um kjararáð sé vel ásættanleg leið til að leysa þessi mál. Mér finnst það liggja í hlutarins eðli og hef tjáð það áður á hv. Alþingi og opinberlega að alþingismenn og ráðherrar geti ekki verið leiðandi fyrirmynd um breytingar á kjörum í landinu. Þeir hljóta eðli málsins samkvæmt að taka mið af öðrum sambærilegum hópum og hins vegar almennri launaþróun í landinu og í þeim tillögum sem hér birtast er m.a. mælt fyrir um það, sem er nokkru skýrara en var áður, að ætíð skuli taka tillit til þess sem gerst hefur í þróun kjaramála á almennum vinnumarkaði eða eins og segir í niðurlagi 8. gr. frumvarpsins:

„Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Í 10. gr. segir enn fremur:

„Kjararáð skal taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögum þessum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þess tekur til.“

Það liggur því skýrt fyrir í þessari stefnumótun í lögunum að þær launabreytingar sem kjararáð mun ákveða í framtíðinni skuli ætíð taka mið af þróun kjaramála á almennum vinnumarkaði og raunar einnig af öðrum verulegum breytingum sem orðið hafa á launum.

Hæstv. forseti. Ég tel að það geti auðvitað gerst sem var í raun og veru tilefni þess að þessi mál fóru í þann farveg sem þau fóru fyrir jólin og í kringum áramótin og varð til þess að úrskurður Kjaradóms var ekki látinn standa, þ.e. að á ákveðnum tímapunkti höfðu launabreytingar sem gengu eftir í þjóðfélaginu ekki verið settar inn í laun alþingismanna, þeirri ákvörðun hafði verið frestað. Það tengdist m.a. því, held ég, að mikill órói varð um mál, sem m.a. kom til umræðu áðan, varðandi lífeyriskjör ráðherra og alþingismanna. Kjaradómur lét viðmiðunarhækkun sem þá átti sér stað bíða en kippti henni svo inn í þennan úrskurð sem olli því fjaðrafoki sem um þetta varð. Það var að mínu mati misráðið að gera það úr því að sú viðmiðun hafði verið látin liggja. Og þá kem ég að því sem ég vildi sagt hafa, að ef Kjaradómur, eða kjararáð í framtíðinni, kemst að þeirri niðurstöðu af einhverjum ástæðum sem málefnalegar teljast, þrátt fyrir fyrirmæli í þessu frumvarpi, ef að lögum verður, að hækkanir skuli ekki ganga til alþingismanna og ráðherra, þá verði slíkt ekki leiðrétt eftir á, einu eða tveimur árum síðar, því að ég tel að slíkar leiðréttingar, þ.e. ef gengið hefur verið á skjön við þær viðmiðanir sem hafa verið settar fyrir ákveðnar stéttir í úrskurði, eigi eingöngu að gera þegar kjörtímabili er lokið.

Ég er út af fyrir sig ekki ósáttur við að slíkar ákvarðanir séu birtar mönnum strax eftir kjördag vegna þess að þeir sem eru í kjöri vita ekki nákvæmlega hvaða breytingar verða á launakjörum þeirra. Í raun og veru er þetta eina millibilsástandið til að úrskurða mönnum sem eru í starfi og hins vegar mönnum sem koma til með að taka við starfi launabreytingar. Ef svo vill til að eitthvað fari úrskeiðis, eins og má að hluta til færa rök fyrir varðandi þá deilu sem reis upp um áramótin, þá verður bara svo að vera út það kjörtímabil og menn geta ekki verið að hífa það inn einu eða tveimur árum síðar, slíkar lagfæringar verða að fara fram þegar alþingismenn hafa í raun og veru misst umboð sitt og aðrir hafa ekki tekið endanlega við. Ég held að þetta sé sá tímapunktur þar sem hægt er að leiðrétta ef eitthvað hefur farið verulega úrskeiðis og að mati ráðsins beri þess vegna að leiðrétta með einhverjum hætti en eins og segir í frumvarpinu ber kjararáðinu „að taka mál til meðferðar þegar því þykir þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögum þessum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald þess tekur til“.

Þarna er nokkuð fast að orði kveðið. Ég tel að lagagrein svona orðuð hefði m.a. orðið til þess að ráðinu hefði ekki verið heimilt að skilja eftir þá umræddu hækkun sem skilin var eftir á sínum tíma og miðað við þessa uppsetningu á lögunum hefði orðið að taka tillit til hennar og afgreiða hana en fresta því ekki að taka afstöðu til hennar og láta þá viðmiðun liggja eins og síðan varð raunin og varð til þess að viðbrögð við úrskurði Kjaradóms urðu veruleg í þjóðfélaginu, og er kannski ekkert að undra vegna þess að ekki voru gefnar nægilegar skýringar á því hvernig Kjaradómur komst að þeirri niðurstöðu fyrr en eftir á þegar miklar deilur höfðu risið í þjóðfélaginu sem nauðsynlegt var að lægja. Við í stjórnarandstöðunni töldum hins vegar að best hefði verið að taka dóminn úr sambandi fyrir áramót áður en hann kom til framkvæmda en það var ekki gert. Það hefði verið hægt að kalla þing saman og klára það en niðurstaðan varð önnur.

Vinna þeirrar nefndar sem sett var á laggirnar til að skoða þessi mál liggur nú fyrir og mér sýnist í meginatriðum að niðurstaða hennar sé ásættanleg leið í þessum málum en eins og ég sagði áðan eru leiðirnar kannski aðeins tvær í mínum huga. Annaðhvort höfum við svona dóm eða nefnd, sem ég vil kalla gerðardóm, sem festir niður launin okkar um ákveðinn tíma og annarra viðmiðunarhópa sem þeirra njóta, eða við tökum beina ábyrgð á þessu sjálf, a.m.k. hvað varðar laun alþingismanna í hv. Alþingi, með því að setja sérstakan starfshóp á vegum þingsins til að klára þessi mál. Eins og ég sagði áður virðist mér nefndin hafa komist að ákveðinni millileið en Alþingi ber auðvitað beina ábyrgð á þessum niðurstöðum, bæði með setningu laganna og ekki síður með því að skipa þrjá menn eða meiri hluta kjararáðsins.

Varðandi umræðuna um lífeyrismál sem vikið var örlítið að áðan þá virtist vera meiningarmunur á milli manna þar. Ef ég man það rétt sem fór okkar á milli, mín og hæstv. forsætisráðherra, í þeim málum þá lýsti ég þeirri skoðun minni að sá ágreiningur sem e.t.v. væri milli manna í því máli ætti að ræðast í þinginu og menn ættu að ræða þessi mál opinskátt. Ég tel að það sé alveg full þörf á því að við alþingismenn ræðum lífeyrismál okkar fyrir framan þjóðina og förum yfir stöðuna. Það er umdeilt sem gert var síðast í þeim málum og margir í þjóðfélaginu hafa staðið í þeirri meiningu að allir hópar sem við það áttu að búa hafi hagnast verulega á þeirri breytingu. Ég hygg að venjulegir óbreyttir þingmenn hafi ekki gert það varðandi lífeyrisréttindi sín. Þeir sem nú eru starfandi eiga að vísu val en breytingin færði alþingismönnum í raun og veru ekki sérstaka kjarabót að því er varðar lífeyrisréttindi þeirra. Hins vegar gegnir öðru máli um ráðherrana.

Hæstv. forseti. Aðeins í lokin. Ég held að við eigum ekki að vera feimnir við það, alþingismenn, að ræða um launakjör okkar. Þau eru ekkert til að fela á nokkurn hátt og við eigum að tala um slík mál eins og þau eru. Ég stóð sjálfur í því í áratugi að tala um kjör þeirrar stéttar sem ég vann fyrir, sem voru reyndar mín eigin laun eins og annarra skipstjórnarmanna, og ég tel ekki að alþingismenn þurfi á nokkurn hátt að bera sig undan því að ræða launakjör sín. Sú nefnd sem sett var í þetta mál, að ákveða hvernig þessum málum verður skipað, hefur hins vegar komist að sameiginlegri niðurstöðu og mér sýnist að eftir atvikum hafi tekist alveg þokkalega til.