132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Upplýsingalög.

690. mál
[13:54]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, en eins og allir í þessum sal vita og þjóðin líka þá eru upplýsingalögin afar mikilvæg í stjórnsýslu- og stjórnkerfi okkar og hafa margítrekað sannað gildi sitt. Því skiptir miklu máli að þessi lög séu í stakk búin til að mæta því markmiði sem þau eiga að ná.

Hér er um að ræða frumvarp sem leggur til að lögleidd verði ákvæði um endurnot opinberra upplýsinga. Frumvarpið ku vera byggt á tilskipun Evrópusambandsins um endurnot opinberra upplýsinga þó að í því sé lagt til að gengið verði lengra í að þrengja gjaldtökuheimildir af upplýsingum og opinberum skrám og af höfundarrétti ríkisins á þessum upplýsingum en er í sjálfri tilskipuninni. Samkvæmt frumvarpinu verður stjórnvöldum víst skylt með ýmsum takmörkunum þó að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál og það eru stjórnvöld sem ákveða hvort gögn sem heimilt er að veita aðgang að skulu sýnd eða veitt af þeim ljósrit eða afrit. Í þeim tilvikum sem stjórnvald ljósritar eða afritar gögn og lætur einkaaðila í té ber að taka gjald samkvæmt gjaldskrá sem forsætisráðherra ákveður.

Mig langaði að beina fyrstu spurningu minni til hæstv. forsætisráðherra um þessa gjaldskrá sem komið er inn á í 4. mgr. 4. gr. um að hann ákveði gjaldskrána. Er það réttur skilningur að hér sé um að ræða gjaldskrá sem byggist á meginreglunni um þjónustugjald, þ.e. að ekki megi rukka hærra verð en sem nemur þeim kostnaði sem hlýst af viðkomandi þjónustu? Hluti skilgreiningar á þjónustugjaldi er að ekki má rukka hærra verð fyrir en það sem viðkomandi þjónusta kostar. Þetta aðskilur t.d. þjónustugjald hjá skatti. Við höfum oft tekist á í þessum sal um þjónustugjald annars vegar og hins vegar skatt. Síðast man ég eftir umræðunni um skráningargjöld í Háskóla Íslands. Þar héldu margir stjórnarliðar að um væri að ræða þjónustugjald þrátt fyrir að þar hefði komið skýrt fram að það gjald var hærra en sem næmi kostnaði við skráninguna. Það var alveg ljóst að okkar mati að í því tilviki var ekki um þjónustugjald að ræða heldur upphæð sem var ákveðin í lögum og á meira skylt við skatt. En mig langar að spyrja, eins og ég segi, hæstv. forsætisráðherra hvort hér sé um að ræða þjónustugjald. Eða getur hann ákveðið hærra verð í þessari gjaldskrá? Ég man líka eftir því þegar almenningur var að nálgast útprentanir af dómum héraðsdómstóla. Þá þurfti, alla vega þegar ég kynntist því, að borga 100 kr. fyrir hverja blaðsíðu. Þá áttaði maður sig á því að það var ekki í neinu samræmi við þann kostnað sem hlaust af viðkomandi ljósritun. En þetta var ákveðið með sérstökum hætti í lögum hvað þetta varðar. Alla vega vil ég að fá það á hreint hvort hér sé um að ræða þjónustugjald.

Önnur spurningin til hæstv. forsætisráðherra lýtur að hugsanlegu tekjutapi viðkomandi stofnana. Hvernig verður því mætt? Verður eitthvert slíkt tekjutap. Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar er sagt að frumvarpið muni hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkisins. En það er líka ágætt að taka undir meginmarkmið þessa frumvarps. Það er að sjálfsögðu jákvætt að auka eigi aðgang almennings að opinberum upplýsingum. Við eigum að stuðla að gegnsæju og opnu stjórnkerfi og allar gjörðir ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda eiga að þola dagsins ljós nema mjög ríkar ástæður séu til annars.

Þriðja spurning lýtur að punkti sem bent er á í umsögn fjárlagaskrifstofunnar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hugtakið stjórnvald er skilgreint mun víðtækara í 5. gr. en í 4. gr. frumvarpsins og nær til velflestra aðila sem starfa á vegum hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. Undanþága er veitt fyrir skóla, rannsóknastofnanir og menningarstofnanir þótt hlutaðeigandi ráðherra verði heimilað að fella starfsemi stofnana á þessu sviði undir kaflann í heild eða að hluta til.“

Svo kemur þetta sem lýtur að minni spurningu, með leyfi forseta:

„Frumvarpið veitir takmarkaðar leiðbeiningar um flokkun aðila sem njóta undanþágu frá ákvæðum kaflans. Í athugasemdum eru nefnd dæmi um flokkun stofnana sem stunda rannsóknir án þess að fram komi hvaða munur er á stofnunum í hvorum flokki og að Iðntæknistofnun Íslands, Veiðimálastofnun, Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir falli ekki undir kaflann en það geri Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veðurstofa Íslands. Óskýrar flokkunarreglur valda ákveðnum vanda við kostnaðarmat frumvarpsins.“

Svo stendur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fylgir með þessu frumvarpi.

Ef hæstv. forsætisráðherra treystir sér til að skýra og svara þessari athugasemd sem fjárlagaskrifstofan bendir á um að flokkunarreglur séu óskýrar, þá væri það til bóta fyrir okkur sem tökum við þessu máli í allsherjarnefndinni.

Mig langar einnig að spyrja um 6. gr. Hún lýtur að sérleyfissamningum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga sem ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. 28. gr. skulu renna út eigi síðar en 31. desember 2008.“

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort honum sé kunnugt um að slíkir sérleyfissamningar séu til staðar nú þegar. Hefur hið opinbera samið um svona sérleyfissamninga um nýtingu á opinberum upplýsingum sem samkvæmt þessari grein þyrfti þá væntanlega að rifta með einhverjum hætti.

Það er ýmislegt jákvætt í þessu frumvarpi að sjálfsögðu þó að við munum skoða þetta betur í nefndinni. Markmið frumvarpsins sem lýtur að því að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og gera þeim kleift að hagnýta möguleika þeirra og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun er í sjálfu sér jákvætt. Við eigum að opna fyrir okkar stjórnkerfi. Rauði þráðurinn, það sem liggur að baki upplýsingalögunum og stjórnsýslulögunum einnig sem voru sett á svipuðum tíma, er að gjörðir og ákvarðanir stjórnvalda eigi að þola dagsins ljós og það er um að gera að þessar opinberu upplýsingar geti nýst öðrum en einungis opinberum aðilum. En þetta munum við að sjálfsögðu skoða betur í allsherjarnefndinni og ekki síst með hliðsjón af þessari ákvörðun sem hefur verið tekin úti í Evrópu og hefur áhrif á framlagningu þessa frumvarps ef ég skil það rétt.