132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[14:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Á þeim fundum sem ég hef setið í Vísinda- og tækniráði hefur almennt verið hvatt til að sameina alla skylda starfsemi. Ég tel það einmitt vera það sem verið er að gera. Það er verið að sameina í frumvarpi iðnaðar- og viðskiptaráðherra meginhluta atvinnu- og þróunarstarfsemi í landinu og tengja það við menntastofnanir og rannsóknastofnanir vegna þess að það er það sem skiptir meginmáli í nýsköpun.

Þetta hefur verið sá andi sem hefur verið í störfum Vísinda- og tækniráðs. Ég tel að þessar stofnanir falli afskaplega vel saman. Því það liggur fyrir að allar þessar stofnanir eru að vinna að atvinnuþróun. Ég sé enga ástæðu til að aðskilja sérstaklega atvinnuþróun eftir landshlutum. Atvinnuþróun í landinu í heild hlýtur að skipta meginmáli. Síðan munu starfa atvinnuþróunarfélög í einstökum landshlutum sem skipta meginmáli.

Með þessum hætti er verið að sameina kraftana og samræma þá og það er nákvæmlega í anda þess sem hefur verið rætt um í Vísinda- og tækniráði.