132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[14:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst pólitísk ákvörðun hvort beri að sameina stofnanir eða ekki. Að endingu er það pólitísk ákvörðun. Það ekki ákvörðun ágætra embættismanna.

Ég vænti þess að hv. þingmaður sé ekki að tala um að Vísinda- og tækniráð eigi að ákveða þetta og það skipti meginmáli hvaða orð hafi fallið þar. En ég fullyrði að það sem þar er verið að gera er í anda þeirrar umræðu sem hefur verið í Vísinda- og tækniráði þegar ég hef setið þar. (Gripið fram í: Fjölluðuð þið um það?) Ég bið hv. þingmann að sýna þolinmæði. Hér er verið að flytja frumvörp í þeim anda.

En ef hv. þingmaður er andvígur því að fara út í þessar nýjungar og samræma þessa hluti við það sem almennt gerist í öðrum löndum og fara út í þessar mikilvægu breytingar verður hann að eiga það við sig. Ég ætla ekkert að hjálpa honum í þeim efnum.

Ég er sannfærður um að þetta er mjög mikilvægt mál, til mikilla bóta og nákvæmlega í anda alls þess sem hefur farið fram í Vísinda- og tækniráði. Að öðru leyti getur hv. þingmaður að sjálfsögðu óskað eftir því að fulltrúar úr því ágæta ráði komi til fundar við nefndir og fari yfir þetta. Ég vænti þess að hann muni gera þetta upp við sjálfan sig og taki um það pólitíska ákvörðun en leiti ekki aðallega í smiðju annarra í því sambandi.