132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[14:51]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um vísinda- og tækniráð. Eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra er þetta frumvarp lagt fram samhliða frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun þar sem lögð er til sameining Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins auk Byggðastofnunar.

Ég lýsti þeirri skoðun minni í umræðu um það mál í gær að ég teldi sameiningu Iðntæknistofnunar Íslands og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins ágæta hugmynd og að það frumvarp sem við ræddum í gær og ég minntist á væri að mörgu leyti mjög gott nema Byggðastofnun væri þar skeytt inn í eins og skrattanum úr sauðarleggnum og ætti þar ekki heima. Ég ætla þó ekki að taka þá umræðu hér heldur vísa til orða minna um málið í gær hvað það varðar. Mér fannst ég þó þurfa að nefna það hér þar sem þessi mál tengjast að ég hef verulegar efasemdir um að rétt sé að spyrða byggðamálunum inn í þennan mikilvæga málaflokk og þá mikilvægu uppbyggingu að sameina stofnanir sem hafa með atvinnuþróun að gera.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Vísinda- og tækniráð er margt ágætt og ljóst að þar er góður hugur að baki. Í fyrsta lagi vil ég nefna að í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Meðal annars hefur skilningur aukist á mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslegar framfarir.“ Ég ætla að byrja á því að fagna því að loksins hafi fengist hjá þessari ríkisstjórn skilningur á mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslegar framfarir vegna þess að framlög til þessa málaflokks á undanförnum árum hafa ekki sýnt það að sá skilningur hafi verið fyrir hendi. Því fagna ég því að það sé þó alla vega komið í texta að menn telja að þeir skilji nú mikilvægi vísindarannsókna fyrir efnahagslegar framfarir vegna þess að við í Samfylkingunni höfum ítrekað bent á að aukið fjármagn þurfi til rannsóknastofnana í landinu og þá ekki síst til rannsókna innan háskólanna. Ég vonast til þess að samhliða svona yfirlýsingu og því að menn hafi öðlast skilning á mikilvægi þessa muni koma til aukið fjármagn til rannsóknastofnana og þá ekki síst til rannsókna innan háskólanna. Mér þætti vænt um að heyra frá hæstv. ráðherra hverjar þær fyrirætlanir eru og hvort menn hafi sett niður fyrir sér með hvaða hætti sú uppbygging ætti að vera innan háskólastofnana í landinu. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra greini okkur frá því hvort einhver markmið hafi verið sett og þá hver þau eru um aukin framlög til þeirra.

Virðulegi forseti. Þá er það alveg ljóst að við þurfum að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf hér í landi. Við getum ekki haldið áfram að einblína eingöngu á frumgreinar eins og gert hefur verið. Þarna vil ég nefna það nýjasta, þ.e. stóriðjan og þær sterku áherslur sem hafa verið á hana, heldur verðum við að fara að líta til annarra þátta atvinnulífsins og þar vil ég ekki síst nefna hátækniiðnaðinn.

Það er mín skoðun, frú forseti, að gamaldags verkaskipting ráðuneytanna hafi staðið slíkri uppbyggingu fyrir þrifum vegna þess að fimm ráðuneyti fara með atvinnumál í landinu. Það er augljóst þegar maður skoðar þá skiptingu að hún er löngu úr sér gengin og til að byggja upp fjölbreytt og öflugt atvinnulíf til framtíðar þurfi að taka til í Stjórnarráðinu og sameina atvinnuvegaráðuneyti.

Virðulegi forseti. Þá er það þannig að sóknarfærin til framtíðar eru í hátækninni. Í svari iðnaðarráðherra við ágætri fyrirspurn hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um hátækni- og nýsköpunargreinar kemur fram að framlag hátækniiðnaðarins til landsframleiðslu hefur aukist frá því að vera 0,2% árið 1990 í 3,9% árið 2004. Þetta er þó nokkur aukning en þó ekki nærri því eins mikil og hún ætti að vera. Það er áhugavert í þessu svari og ég tel að Vísinda- og tækniráð ætti að skoða það sérstaklega að verulega hefur hægt á vextinum í hátækniiðnaðinum á undanförnum árum, sem er auðvitað áhyggjuefni, og verðmæti hátæknigreina, þ.e. aukning milli ára hefur dregist verulega saman frá árinu 2000. Þetta er eitthvað sem verður að skoða sérstaklega og ég legg áherslu á vegna þess að við verðum að byggja hátækniiðnaðinum í landinu almennilegt umhverfi vegna þess að við viljum ekki missa þau úr landi af því að sóknarfærin þar eru gríðarleg og vaxtarmöguleikarnir mjög miklir eins og sjá má á þessu svari. Hátækniiðnaðurinn er ekki að skila nema 3,9% af landsframleiðslunni í dag þannig að ef einhvers staðar þá eru vaxtarmöguleikarnir þar og að byggja upp fjölbreytt atvinnutækifæri fyrir unga fólkið í framtíðinni. Því verður að búa vel að þessum fyrirtækjum.

Þá vil ég aðeins koma inn á þann þátt að það verði að búa vel að þessum fyrirtækjum. Umhverfi fyrirtækja á Íslandi í dag er að mörgu leyti ágætt en það dugar ekki þessum nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum að vera með hið almenna regluverk um umhverfi fyrirtækja. Lágur tekjuskattur á fyrirtæki dugar þessum fyrirtækjum ekki vegna þess að fyrstu 10–15 árin í sinni starfsemi skila þessi fyrirtæki ekki tekjum og eru þar af leiðandi ekki að greiða tekjuskatt og þar með gagnast þetta þeim ekki. Því tel ég, og við höfum talað fyrir því í Samfylkingunni, að það verði að koma til sértækar aðgerðir fyrir þessi fyrirtæki á meðan þau eru að byggja sig upp og afurð þeirra er að verða að verðmæti. Eins og ég segi er talað um að það geti tekið 10–15 ár og því þurfa þau önnur úrræði. Eitt þeirra úrræða er svokölluð norska leiðin. Það er sú leið að endurgreiða og ívilna í gegnum skattkerfið. Þar er endurgreitt um 20% af rannsóknar- og þróunarkostnaði skilgreindra verkefna upp að ákveðinni upphæð sem getur verið 10 milljónir eða 100 milljónir eftir því hvernig stefnumótunin fer fram. Þetta teljum við mjög góða aðferð og gagnsæja til að ívilna sprotafyrirtækjum á sínum uppvaxtarárum og hefði ég viljað heyra viðhorf hæstv. forsætisráðherra til þessarar leiðar að nota skattkerfið með þessum hætti og fara þessa norsku leið.

Hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrirspurn um þetta í síðustu viku, fyrirspyrjandi var hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, og sagði að vegna þess hve mikill áhugi væri á því að fara þessa leið þá teldi hann rétt að skoða það. Ég mundi þess vegna vilja heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvernig hann líti á þessa leið og hvort hann sjái möguleika í því að taka hana upp hér á landi. Þetta tel ég mikilvægt, virðulegi forseti, að við ræðum vel vegna þess að það hefur sýnt sig að hið almenna regluverk fyrir fyrirtæki hér á landi er ekki að gagnast þessum sprotafyrirtækjum neitt og því verði að grípa til sértækra aðgerða.

Í lokin vil ég segja það aftur að ég tel að í hátækniiðnaðinum liggi sóknarfæri til framtíðar. Það er að mínu mati ekki viðunandi að hátæknifyrirtæki séu eingöngu að skila tæplega 4% af landsframleiðslunni og ég tel að stuðningur hins opinbera á uppbyggingarárum og uppvaxtarárum þessara fyrirtækja sé gríðarlega mikilvægur. Því ber ég töluverðar væntingar til Vísinda- og tækniráðs í þá veru að hlúa betur að þessum málaflokki. Það er mikilvægt að Vísinda- og tækniráð fái verkfæri sem eru peningar að sjálfsögðu og gott lagaumhverfi. Sömuleiðis að umhverfi þessa Vísinda- og tækniráðs verði gott og þar tel ég norsku leiðina vera afar spennandi.

Ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvort lögð hefði verið fram einhvers konar áætlun um fjármagn til verkefna þessa ráðs. Þá hefði ég líka viljað heyra hver séu markmið ríkisstjórnarinnar um aukningu á framlögum á næstu árum til annars vegar rannsóknastofnana og þar er ég ekki síst að tala um rannsóknir innan háskólanna. Sömuleiðis hver hlutdeild hátækniiðnaðar hæstv. ríkisstjórn telur að sé æskileg í landsframleiðslunni vegna þess að ef við setjum okkur ekki markmið í þessum efnum verður okkur áreiðanlega minna úr verki. Mér þætti því mikilvægt að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort einhver slík markmið hafi verið sett.

Virðulegi forseti. Þá hefði ég líka viljað heyra frá hæstv. ráðherra um það sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar, þ.e. um viðhorf hans til sameiningar ráðuneyta og hvort hann telji ekki rétt að sameina þau fimm atvinnuvegaráðuneyti sem í dag fara með atvinnumálin og líka viðhorf hans til þessarar norsku leiðar sem og ég nefndi áðan.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu en ég óska eftir því að hæstv. ráðherra komi inn á þessi þrjú atriði sem ég spurði um.