132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[15:03]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil fyrst nefna að mér finnst mikils um vert þegar ríkisstjórn Íslands tekur til máls sem varðar nýsköpun, þróun og tækniframfarir. Þess vegna vil ég vera jákvæður í garð þessa máls. En þó ætla ég að benda á eitt og annað sem mér finnst vera umhugsunarefni.

Þá vil ég fyrst nefna að 1. gr. frumvarpsins endar með þeim orðum að það eigi að auka lífsgæði í landinu öllu. Mér finnst það vera orðið tímanna tákn að taka þurfi það fram í lagafrumvarpi að það eigi að ná til alls landsins. Það segir kannski sína sögu um hvernig byggðamálum er fyrir komið í landinu að þegar frumvarp er lagt fyrir þingið þurfi að taka það sérstaklega fram að það eigi að ná til alls landsins. Mér finnst þetta vera mjög sérstakt svo vægt sé til orða tekið.

Það er fleira sem ég vil nefna og mér finnst vert að taka til umhugsunar í þessari umræðu. Þegar verið er að ræða um vísindi þá snúast vísindi um gagnrýna hugsun þar sem menn velta hlutunum fyrir sér og láta þá lönd og leið ýmsa aðra hagsmuni og taka heldur rökhugsun um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Mér finnst umhugsunarefni að þegar verið er að fara yfir hverjir eiga að skipa Vísinda- og tækniráð er lögð ofuráhersla á flokkspólitíska nefndarmenn í vísindaráði þar sem gagnrýnin hugsun á að ráða för. Ég get ekki betur séð en að leggja eigi enn meiri áherslu á það með þessu frumvarpi. Það væri þarft fyrir umræðuna að hæstv. forsætisráðherra segði frá hvað kallaði á að enn meiri áhersla væri á að hið flokkspólitíska vald setti enn fleiri fulltrúa í þessa nefnd. Það kemur fram að verið er að fjölga setu hæstv. ráðherra í þessu Vísinda- og tækniráði. Það væri ágætt að fá það fram hvað kallaði á það.

Í sjálfu sér tel ég að menn eigi að gera ákveðinn greinarmun á vísindum og tækni. Það kemur fram í frumvarpinu á bls. 3 að þessi deildaskipting sé ekkert skýr og menn eigi að vinna náið saman. Það má vel vera rétt. Auðvitað byggja tækniframfarir á vísindum. En hún er óneitanlega sérstök þessi ofuráhersla pólitískra flokka á að skipa og vera með sína fulltrúa í því hvernig eigi að fara fyrir gagnrýnni hugsun í landinu.

Fleira má nefna í þessu sambandi. Það er umhugsunarefni hvað hagsmunaaðilar eigi að ganga langt varðandi kostun á ýmsu. Það er vissulega jákvætt þegar atvinnulífið kemur inn í háskólana með ákveðin verkefni sem þarf að þróa. Það kom upp mál í síðustu viku þar sem Háskóli Íslands ákvað að kosta rannsóknarstöðu í auðlindafræðum, miklu pólitísku deilumáli. LÍÚ sá um að fjármagna kostun á þessum fræðum. Ég er á því að það sé mjög umdeilt frá hvaða kostunaraðilum Háskóli Íslands, sem á náttúrulega að vera miðstöð gagnrýnnar hugsunar í landinu, taki peningana.

Ég hef nefnt að þetta sé svona álíka, og ég sé að hæstv. forsætisráðherra brosir að þessu, og Háskóli Íslands taki við öðru máli sem snertir hæstv. forsætisráðherra, innflytjendur á hinum og þessum vímuefnum svo sem áfengi og tóbaki. Hvort þeir mundu kosta eina rannsóknarstöð í lýðheilsufræðum í Háskóla Íslands. Ég teldi það vafasamt. Fleira má nefna sem væri mjög vafasamt að Háskóli Íslands tæki að sér og hvaðan hann tæki kostunaraðila. Það má nefna rannsóknarstöð í samkeppnisrétti sem væri kostuð af olíufélögunum og fleira má nefna. Það er því um að gera að menn horfi á þessa hluti með gagnrýnum huga og fari í gegnum þetta mál.

Að lokum erum við mjög jákvæðir í Frjálslynda flokknum og þökkum í rauninni fyrir þann áhuga sem ríkisstjórnin sýnir þó með þessu frumvarpi. En við erum ekki endilega á að auka þurfi flokkspólitísk tök á þessum málaflokki. Alls ekki. Ég er á því að málinu og þessum málaflokki væri jafnvel betur borgið ef þessum flokkspólitísku tökum væri sleppt.