132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[15:19]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Ég verð samt að segja að ég er honum ekki sammála um að skattaleiðir til að mæta þróunar- og rannsóknarkostnaði sprotafyrirtækja þurfi að vera svo miklum vandkvæðum bundnar. Ég tel að það væri lítið mál að skilgreina og marka skýran ramma utan um slíkar endurgreiðslur. Ástæðan fyrir því að mér finnst þetta athyglisverð leið er sú að með henni eru fyrirtæki ekki háð þeim sveiflum og þeim gríðarlega kostnaði sem fylgir því að sækja fé í þessa samkeppnissjóði. Það sem skiptir máli á uppbyggingartíma þessara fyrirtækja er stöðugleiki, stöðugleiki í innkomu og að þau geti gert áætlanir fram í tímann. Vandamálin sem tengjast þessum samkeppnissjóðum eru tíminn sem fer í að sækja féð og það kostar þessi fyrirtæki fé.

Ég vildi koma því á framfæri að mér finnst að við ættum að skoða þessa leið mjög ákveðið. Ég tel hana afar spennandi til að mæta þessum fyrirtækjum og mæta kostnaði þeirra. Ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherra minni neikvæðni gagnvart þessari leið, að hún sé svo miklum vandkvæðum bundin. Ég hefði viljað heyra jákvæðari tón um að stefna bæri í þá átt.

Virðulegi forseti. Mig langar einnig að nefna það að aukning á framlagi til háskóla að raungildi 80% frá 1998 er nánast eingöngu bundið við fjölgun nemenda. Þarna hefur ekki komið neitt nýtt fé inn (Forseti hringir.) til háskólanna að öðru leyti, svo neinu nemi.