132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[15:23]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hæstv. forsætisráðherra er ekki uppfinningamaður vandkvæðanna. En varðandi háskólana verð ég að nefna að við vitum að orðið hefur sprenging í fjölgun nemenda. Þessi framlög til háskóla, þessi mikla aukning sem orðið hefur, hefur verið vegna fjölgunar nemenda. Hún hefur ekki svo neinu nemi farið til rannsókna innan háskólanna enda hefur það birst í að háskólarnir kalla eftir auknu rannsóknafé til að halda starfsemi sinni áfram, sérstaklega til að byggja upp nám á meistara- og doktorsstigi, sem er auðvitað undirstaða alvöru nýsköpunar. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að auðvitað helst þetta allt í hendur.

Vegna þess að ég hef bara einnar mínútu ræðutíma þá ætla ég ekki að ræða um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Henni hefur ítrekað verið gefin falleinkunn á undanförnum mánuðum og árum. Mér finnst því sérkennilegt að ráðherra standi hér og berji sér á brjóst vegna hennar.

En ég fagna því að það komi til greina að fara þessa norsku leið, að ívilna í gegnum skattkerfið þessum fyrirtækjum í uppbyggingu. Þótt við séum með ágætt umhverfi fyrir fyrirtæki sem eru komin á legg þá er það ekki jafngott fyrir fyrirtæki sem eru í uppbyggingu. Þetta eru eðlisólík fyrirtæki, fyrirtæki sem eru að byggja sig upp í þróun á fyrstu árum og síðan fyrirtæki sem eru orðin þroskuð og komin með mótaða afurð. Þetta eru eðlisólík fyrirtæki og þurfa því ólíka umgjörð fyrir starfsemi sína.