132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

744. mál
[15:25]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er skrýtin einkunnagjöf sem hv. þingmaður vill gefa efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið 60% undanfarin 10 ár. Það er ekkert land hér í kringum okkur sem hefur haft jafnmikinn vöxt. Hvaða einkunn fá þá þau lönd eða er það ekki vöxturinn sem skiptir máli? Er það ekki vöxturinn? (KJúl: Hvað með stöðugleikann?) Stöðugleikinn, auðvitað skiptir stöðugleiki máli en sem mestur vöxtur án þess að fórna stöðugleikanum. Hv. þingmaður kallar á meira fjármagn til háskóla, til heilbrigðismála en hvernig ætlar hv. þingmaður að útvega það fjármagn? Hvar á að ná í þá peninga? Það er ekki hægt að ná í þá öðruvísi.

Það þýðir ekkert fyrir Samfylkinguna, í máli eftir máli, að koma og segja: Það verður að fá meira í þetta og meira í hitt og segja svo að vöxturinn sé vandamál. Það bara gengur ekki upp. Hagvöxturinn er það sem skiptir máli. Það er það sem skiptir máli inn í framtíðina, um hvort við getum sett meira fjármagn, m.a. til háskólanna. Núna eru 165 doktorsnemar við nám við Háskóla Íslands, sem er mikil aukning. En við þurfum fleiri doktorsnema, það er rétt. Það er fullur stuðningur við það af hálfu ríkisstjórnarinnar, að halda áfram að efla Háskóla Íslands, efla menntun, þekkingu og vísindi í landinu. Það höfum við gert í miklum mæli á undanförnum árum og við ætlum að halda því áfram. En til þess þarf öflugt atvinnulíf og hagvöxt til að standa undir því. Hjá því komumst við ekki.