132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Norðurlandasamningur um almannaskráningu.

609. mál
[15:28]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðfestingu Norðurlandasamnings um almannaskráningu.

Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar samnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um almannaskráningu sem gerður var í Stokkhólmi 1. nóvember 2004.

Gert er ráð fyrir að hinn nýi Norðurlandasamningur um almannaskráningu öðlist gildi 1. október 2006, enda hafi öll norrænu ríkin staðfest samninginn fyrir 1. júlí 2006. Samningurinn mun leysa af hólmi núgildandi samning sem gerður var 8. maí 1989 og öðlaðist gildi 1. október 1990.

Megininntak núgildandi samnings er að flutningur manna milli norrænu ríkjanna verður ekki skráður nema á grundvelli samnorræns flutningsvottorðs, sem svo er kallað. Með nýja samningnum verður samnorræna flutningsvottorðið lagt niður en í stað þess verða við flutninga fólks tekin upp rafræn samskipti og tilkynningar milli höfuðstöðva skráningaryfirvalda í hverju norrænu ríkjanna. Norrænu ríkin munu áfram skiptast á sömu grunnupplýsingum og verið hefur og áfram verður sá skilningur hafður í heiðri að Norðurlöndin séu, hvað almannaskráningu varðar, eitt skráningarsvæði. Þannig verður áfram tryggt að enginn geti átt lögheimili samtímis í tveimur norrænu ríkjanna. Áfram mun hvert ríkjanna um sig taka ákvörðun um skráningu lögheimilis hjá sér á grundvelli eigin löggjafar.

Sú nýbreytni í samningnum að taka við flutninga fólks milli norrænu ríkjanna upp rafrænar flutningstilkynningar í stað samnorrænna flutningsvottorða kallar á breytingu á lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, með síðari breytingum. Kveðið er á um þessa breytingu í 1. gr. frumvarps til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytisins sem forsætisráðherra leggur fram á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpi þessu verði vísað til 2. umr. og utanríkismálanefndar.