132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

610. mál
[15:30]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Með þeirri þingsályktunartillögu sem forseti hefur kynnt er leitað heimildar til Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2006 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 16. janúar síðastliðinn.

Samningur þessi sem kveður á um allar heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvors annars á árinu 2006 er nær samhljóða samningi aðila frá því í fyrra.

Meðal þess sem samkvæmt venju er kveðið á um í samningnum er að færeyskum skipum sé heimilt að landa loðnuafla sínum úr íslensku efnahagslögsögunni til vinnslu á Íslandi en þeim sé óheimilt að vinna eða frysta afla sem veiddur er á tímabilinu janúar til apríl um borð og að utan Íslands sé einungis heimilt að landa þeim afla til bræðslu. Færeyingar hafa á undanförnum árum leitað mjög eftir því að fallið yrði frá þessum takmörkunum á möguleikum þeirra til manneldisvinnslu á loðnu um borð í veiðiskipum og í Færeyjum. Var fallist á það af hálfu Íslands að sjávarútvegsráðherra tæki til athugunar og ákvörðunar fyrir upphaf næstu loðnuvertíðar hvort þeim takmörkunum skuli aflétt og er kveðið á um það nýmæli í samningnum.

Áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 2006. Er þar um óbreyttar veiðiheimildir að ræða frá því í fyrra.

Ég legg til, virðulegi forseti, að tillögu þessari verði vísað til síðari umræðu og hv. utanríkismálanefndar að lokinni umræðu.