132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

610. mál
[15:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem ekki í stólinn til að finna að neinu sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt í þessu efni. Ég vil einungis nota tækifærið og segja að ég er í öllum aðalatriðum sáttur við þennan samning. Ég hlustaði með athygli og gaumgæfni á þau varnaðarorð sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson mælti áðan.

Ég er hins vegar almennt þeirrar skoðunar að við eigum að meðhöndla Færeyinga eins og okkur sjálfa. Ég er ákaflega hlynntur þeim og vinveittur og ég held að svo gildi um alla þingmenn. Ég hef stundum gert athugasemdir um eitt lítið atriði sem tengist fiskveiðisamningum okkar og þeirra, um veiðar þeirra á lúðu. Ég hef ekki verið sáttur við að þeim sé veitt opin heimild til tiltekinna veiða á lúðu sem ég held að eigi mjög erfitt uppdráttar. En það er önnur saga.

Þessi samningur sem hér liggur fyrir er mjög svipaður þeim sem áður hafa verið gerðir. Samningurinn frá fyrra ári sem vísað er til í þessari tillögu var okkur hagstæður um ýmislegt eins og t.d. kolmunnaveiðar og ekki síst möguleika til veiða á makríl. Almennt er ég þeirrar skoðunar að við eigum að efla samstarf okkar eins og hægt er við Færeyinga og reyndar aðrar grannþjóðir eins og Grænlendinga. Ég kem einungis hér til að lýsa fullum stuðningi við efni þessa máls.