132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Samningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Suður-Kóreu.

671. mál
[15:45]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. EFTA hefur reynst okkur ákaflega vel sem tæki til að ná hagstæðum fríverslunarsamningum við lönd sem eru nokkuð mikilvæg viðskiptalönd og eiga eftir að verða enn mikilvægari.

Hæstv. utanríkisráðherra gat þess réttilega að Suður-Kórea væri eitt af þeim löndum sem stundum væru kölluð ljón austursins. Ríki sem er að rífa sig upp af fádæma hörku á efnahagssviðinu og allt virðist þar í miklum uppgangi. Samningurinn er því ákaflega mikilvægur fyrir okkur. Ég hef ekki nokkrar athugasemdir við hann nema síður sé.

Á viðskiptasviðinu höfum við verið að renna hýru auga til fleiri landa í austrinu, landa eins og Kína. Hæstv. ráðherra hefur upplýst það hér í þinginu áður að í gangi sé þýðingarmikil vinna sem miðar að því að Ísland geri sérstakan fríverslunarsamning, tvíhliða hefur mér skilist, við Kína.

Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í gang þess máls og hvort þar sé um að ræða samning sem gerður er fram hjá EFTA? Ef svo er langar mig líka að spyrja hann hvaða þýðingu það kynni að hafa fyrir framtíð EFTA sem samtaka sem við höfum notað sameiginlega, löndin sem að því standa, til að ná fríverslunarsamningum.

Í framhaldi af því vildi ég gjarnan að hæstv. ráðherra segði okkur hvort einhver vinna sé nú í gangi sem miðar að því að ná tvíhliða samningi um fríverslun við Kanada. Ég ætla ekki að eyða tíma í að rekja það mál. Við höfum oft rætt það hér. Hugur minn stendur mjög til þess. Ég minnist þess þegar Kanadamenn sendu hingað sendinefnd fyrir sennilega tíu árum. Það var að þeirra frumkvæði og þeir höfðu af ýmsum ástæðum mikinn áhuga á að ná slíkum samningi við okkur. Við höfum alltaf talist til mikils skyldleika við Kanadamenn og óvíða á kringlunni er að finna fleiri einstaklinga sem líta á sig sem Íslendinga en einmitt þar. Þess vegna eigum við að rækta það íslenska samfélag og tengslin við þá þjóð eins og hægt er.

Það komu upp hnökrar innan EFTA sem einkum vörðuðu skipasmíðar sem tengdust Norðmönnum. En því kem ég hér líka og hnýti þessu aftan við spurningu mína um Kína, hvort ekki sé mögulegt að við ráðumst í það sjálf að gera tvíhliða samning við Kanada þó það sé ekki hægt vegna þessara erfiðleika að ná nokkru landi fyrir tilstilli EFTA.