132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Samningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Suður-Kóreu.

671. mál
[15:48]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir hér nokkur mál til sögunnar sem ég skal með ánægju fjalla um. Það er rétt að mál það sem ég hef hér mælt fyrir byggist á samningi milli EFTA-ríkjanna sameiginlega og Suður-Kóreu. Það hefur verið stefna EFTA að reyna að gera sem flesta samninga af þessum toga við ríki sem skipta máli í viðskiptum fyrir aðildarríki EFTA. Að formi til eru þetta að vísu samningar sem hvert ríki gerir fyrir sig en unnið er að þeim sameiginlega á vettvangi EFTA.

Þegar hafa verið gerðir nokkrir slíkir samningar eins og ég rakti hér í ræðu minni síðastliðinn fimmtudag í umræðum um utanríkismál. Það hefur verið okkar stefna að fara frekar þá leið en að fara í tvíhliða viðræður vegna þess að það er einfaldara mál og skilar yfirleitt jafngóðum árangri. Það hefur verið okkar stefna upp á síðkastið.

Kínverjar hafa hins vegar kosið að reyna frekar að ná samningi við okkur eina. Við höfum að vísu reynt að koma því inn í EFTA-farveg en það hefur ekki tekist. Hvort það næst síðan samkomulag við Kínverja um fríverslunarsamning vitum við náttúrulega ekki enn þá. Í fyrra var undirrituð yfirlýsing þar sem staðfest var að áhugi væri fyrir hendi að fara í slíkar viðræður. Fyrsta viðræðulotan átti sér stað fyrir nokkrum vikum og gert er ráð fyrir að hittast aftur eftir fáar vikur hér heima í Reykjavík. Ég er vongóður um að þetta takist og ég tel að þetta muni skipta máli fyrir okkur í sambandi við útflutning á þennan stóra markað.

Varðandi önnur atriði vildi ég bara upplýsa það hér að EFTA-löndin hafa náð samningum við svokallað fríverslunarsvæði í suðurhluta Afríku. Það stendur til að undirrita þann samning fljótlega. Hann mun þá koma hingað til staðfestingar með sama hætti og það mál sem ég mælti hér fyrir. Þannig er ýmislegt í gangi á þessum vettvangi og búið að vera víða. Menn hafa líka verið að velta fyrir sér samningi við Taíland og fleiri ríki í Asíu.

En hvað varðar Kanada er það rétt sem þingmaðurinn gat um að það hefur ekki náðst samkomulag milli EFTA og Kanada sem þó var lengi talið að góðar líkur væru á að mætti ná. Ég skal ekki fullyrða núna hvernig það mál stendur nákvæmlega vegna þess að það er komin ný ríkisstjórn í Kanada og ekki farið að reyna á hvort hún er viljugri til að semja um þetta en verið hefur. Ég get því heldur ekki svarað því hvort grundvöllur sé fyrir því að hefja einhvers konar tvíhliða viðræður um fríverslun við Kanada. En það er hugmynd sem sjálfsagt er að halda vakandi og láta reyna á ef þurfa þykir.