132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Stefna í málefnum barna og unglinga.

[16:00]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrir fimm árum samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar sem var flutt af þingmönnum úr öllum flokkum þar sem ríkisstjórninni var falið að undirbúa heildstæða stefnu í málefnum barna og unglinga. Á grundvelli stefnumótunarinnar átti að gera fimm ára framkvæmdaáætlun sem leggja átti fyrir Alþingi til staðfestingar eigi síðar en á haustþingi árið 2002. Það tók fimm ár að vinna skýrsluna sem lögð var fyrir Alþingi í lok síðasta þings. Engin framkvæmda- eða aðgerðaáætlun fylgdi, heldur upplýsti hæstv. forsætisráðherra að eftir fimm ára starf nefndar að skýrslugerð sem að komu 130 einstaklingar, m.a. helstu sérfræðingar á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu um málefni barna, yrði málið sett aftur í nefnd og nú í svokallaða fjölskyldunefnd forsætisráðherra.

Þessi gagnrýnisverðu vinnubrögð eru ekki þinginu bjóðandi og kaldhæðnislegt að í skýrslu forsætisráðherra komi fram það álit að nefndir væru ofnotaðar við úrlausn á vandamálum. Maður spyr: Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Það er umhugsunar virði hvernig framkvæmdarvaldið hunsar vilja Alþingis sem fyrir fjórum árum átti að fá til umfjöllunar og staðfestingar aðgerðaáætlun í þessum málaflokki.

Heildstæð stefnumótun og framkvæmdaáætlun í málefnum barna og unglinga hefur verið í gildi í áratugi hjá hinum Norðurlandaþjóðunum og umboðsmaður barna hefur árlega í á annan tug ára kallað eftir slíkri stefnumótun hér á landi en án árangurs utan þeirrar þverpólitísku tillögu sem fimm ára nefndarstarf hefur byggt á. Afraksturinn er sú skýrsla sem hér er rædd. Í skýrslunni er að finna upplýsingar um mikla brotalöm í málefnum barna og unglinga, en þessum hópi tilheyra um 80 þús. landsmenn. Gagnrýni er mikil í skýrslunni á óskilvirkni kerfisins, að alla heildarsýn vanti í málaflokknum og að skortur sé á samhæfingu og pólitískri stefnumótun. Kallað er einnig eftir endurskoðun á verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana sem sé orðin úrelt, óskýr og óhagkvæm.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvað segir hann við þessari gagnrýni sem er mikill áfellisdómur um stöðuna í málefnum barna og ungmenna í stjórnsýslunni? Miklum agnúum er lýst á bóta- og velferðarkerfinu varðandi hag barna, m.a. að bætur velferðarkerfisins séu svo naumt skammtaðar að þær hrökkvi ekki fyrir lágmarksframfærslukostnaði og skorti þar mikið á enda væri fátækt fólk oft fast í svonefndri fátækragildru. Sérstaklega er nefnt að úrbóta sé þörf í málefnum fátækra barna, nýbúa, barna með geðraskanir og barna og ungmenna í vímuefnavanda. Einnig kemur fram hve fljótt dregur úr skólasókn ungmenna því að einungis innan við helmingur tvítugra ungmenna stundar nám.

Ástæða er til að spyrja hvernig hæstv. ráðherra ætlar að bregðast við í þessum efnum og hvort fylgt verði ágætum tillögum í skýrslunni um úrbætur í málefnum þessara hópa sem er afar brýnt að setja í forgang. Það er líka grafalvarlegt að í skýrslunni kemur fram að kynferðisleg misnotkun barna sé stórum útbreiddari en álitið hefur verið hingað til og nærri fimmta hvert barn sem nær 18 ára aldri hefur orðið fyrir henni, auk þess sem stór hópur barna, 5–10%, verður reglulega fyrir einelti í skóla.

Nefnt er einnig að slys á börnum og unglingum sem leita á slysadeild séu tíðust á Íslandi í Norðurlandasamanburði og hlutfallslega slasist helmingi fleiri börn á Íslandi en t.d. í Svíþjóð. Allt þetta, virðulegi forseti, sýnir að þörf er á skipulagðri aðgerð á framkvæmdaáætlun í málefnum barna og ungmenna hér á landi ekki síður en annars staðar á Norðurlöndunum. Þar hefur hún verið í gildi í áratugi.

Gallinn við þessa skýrslu er að hún tekur þó ekki á heildstæðan hátt á því að bæta stöðu allra barna og ungmenna í samfélaginu, heldur miðast stefnumótun og aðgerðir nær eingöngu við afmarkaða hópa sem vissulega þarf að taka sérstaklega á. Tillagan sem samþykkt var á Alþingi gerir hins vegar ráð fyrir því að til komi stefnumótun sem tryggi hag og velferð allra barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búi þeim sem best og jöfnust skilyrði til þroska.

Ég hefði viljað sjá tillögur í málefnum ungbarnafjölskyldna en eitt brýnasta verkefni í málefnum þeirra er að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast í leikskóla og að vinna markvisst að því að gera leikskólann gjaldfrjálsan. Vildi ég gjarnan heyra afstöðu hæstv. forsætisráðherra til þessa brýna máls í málefnum ungbarnafjölskyldna.

Ég sakna þess líka að sjá ekki markvissar tillögur í málefnum fatlaðra barna í þessari skýrslu en úr því þarf að bæta þegar fimm ára framkvæmdaáætlun verður lögð fyrir Alþingi í samræmi við tillögu sem flutt var af þingmönnum í öllum flokkum á árinu 2001.

Um það spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær má vænta þess að þessi framkvæmdaáætlun verði lögð fyrir Alþingi til staðfestingar?

Hvað hefur fjölskyldunefndin gert sem fékk þetta mál til skoðunar fyrir ári síðan? Ég trúi því ekki sem ég hef heyrt að nefndin hafi nákvæmlega ekkert gert með þessa skýrslu á heilu ári, varla litið á hana og að engin framkvæmdaáætlun sé í undirbúningi. Ég trúi því að hæstv. ráðherra hafi önnur skilaboð til þingsins en þau sem ég hef heyrt.